„Okkur langaði að það kæmi líf út úr brúðkaupinu okkar“

Berglind Ólafsdóttir og Örn V. Kjartansson gengu í hjónaband á …
Berglind Ólafsdóttir og Örn V. Kjartansson gengu í hjónaband á laugardaginn. Ljósmynd/Sunday & White Studio

Örn Kjartansson og Berglind Ólafsdóttir, eða Berglind Icey eins og hún er kölluð, gengu í hjónaband síðasta laugardag. Hann er fjárfestir og starfar við fasteignaþróun en hún rekur framleiðslufyrirtækið Icey Productuion. 

Ástin var í forgrunni í brúðkaupi hjónanna. Þau afþökkuðu brúðargjafir létu þau boð ganga að fólk gæti lagt peninga í sjóð sem síðar yrði útdeilt til pars sem gæti ekki átt barn og vildi fara í tæknifrjóvgun. Berglind segir að þau hafi viljað leggja eitthvað að mörkum því sjálf fóru þau í tæknifrjóvgunarferli áður en dóttir þeirra, Ísey Von, sem er eins árs kom í heiminn.

Hjónin voru gefin saman í Dómkirkjunni í Reykjavík og að athöfn lokinni löbbuðu gestir, ásamt brassbandi í Gamla bíó þar sem ástinni var fagnað. Berglind segir að dagurinn hafi verið töfrum líkastur og þau svífi ennþá um á bleiku skýi. Dagurinn var fallegur í alla staði og sólin skein. Þau fengu vini sína, hjónin Frey Frostason arkitekt og Sóleyju Kristjánsdóttir vörumerkjastjóra hjá Ölgerðinni, til að stýra veislunni en þau kynntu brúðhjónin fyrir nokkrum árum. 

Hér eru Örn og Berglind með börnunum sínum. Lengst til …
Hér eru Örn og Berglind með börnunum sínum. Lengst til vinstri er Friðrika, Ísey Von, Arnór Pálmi og Fríða. Ljósmynd/Sunday & White Studio

„Við kynntust í Iðnó á nýársdansleik 2018. Freyr og Sóley eru sameiginlegir vinir okkar og kynntu okkur. Örn er mikill dansari frá því í gamla daga og í Iðnó dró hann mig út á dansgólfið,“ segir Berglind og rifjar upp að þau hafi tekið sér nægan tíma í að kynnast. Hann bauð henni á stefnumót þremur vikum eftir nýársfögnuðinn og ástin kviknaði.

„Við féllum eiginlega fyrir hvort öðru eftir fyrsta deitið,“ segir hún. 

Örn og Berglind voru bæði gift áður en fannst samt mikilvægt að fagna því heitt og innilega að ganga aftur í hjónaband. Það hafi alveg komið til tals að ganga í hjónaband erlendis og halda svo partý hérna heima en þeim langaði það ekki þegar á hólminn var komið. 

„Ef þú giftir í þig í annað sinn þá er það oft svo látlaust og lítið en við vildum leyfa öllum að taka þátt,“ segir Berglind.

Berglind keypti brúðarkjólinn í Úkraínu.
Berglind keypti brúðarkjólinn í Úkraínu. Ljósmynd/Sunday & White Studio

Hvers vegna ákváðuð þið að ganga í hjónaband síðasta laugardag? Hafði dagurinn einhverja sérstaka merkingu?

„Nei, í rauninni ekki. Þessi dagur varð fyrir valinu því þá eru flestir hættir að ferðast og komnir heim úr sumarfríum. Það er komið myrkur úti en samt ennþá sumar. Við náðum að sameina allt þetta á laugardaginn,“ segir Berglind. 

Berglind og Örn gengu í hjónaband í Dómkirkjunni.
Berglind og Örn gengu í hjónaband í Dómkirkjunni. Ljósmynd/Sunday & White Studio

Berglind var í afar fallegum hvítum brúðarkjól sem hún pantaði að utan. 

„Kjólinn pantaði ég frá Úkraínu í miðju stríði. Ég ákvað að taka áhættuna. Ég tók málin af mér og blandaði tveimur kjólum saman sem ég fann á síðunni hjá þeim. Svo fylgdist ég með gangi stríðsins og var ekki viss um að kjóllinn myndi skila sér. Þau reyndu að vinna þetta hratt og örugglega og stóðu sig frábærlega en ég var búin að borga 70% af kjólnum þegar lokað var fyrir póstþjónustu í Úkraínu. Þeim tókst með einhverjum hætti að senda kjólinn til Póllands og þaðan kom hann hingað og það fór svo lítið fyrir honum að ég efaðist um að þetta væri kjóllinn. En þegar ég tók hann úr umbúðunum kom í ljós að þau höfðu vakúmpakkað kjólinn svo það færi sem minnst fyrir honum. Þau voru voðalega ánægð að einhver réð þau í vinnu því stríðið hefur haft mikil áhrif,“ segir Berglind. Hönnuður kjólsins heitir Armonia og framleiðandinn heitir Novia Wedding Gallery. 

Aðspurð um veisluna sem haldin var í Gamla bíói segir Berglind að hún hafi verið töfrandi. 

„Stemningin var einstök. Við vorum með jazzband í fordrykknum. Það voru fjölmargar ræður og atriði. Mugison kom og spilaði, Jóhanna Guðrún kom óvænt sem hluti af einni ræðunni. Svo kom kór og söng. Að lokum spiluðu Babies fyrir dans og síðan lokaði DJ Margeir kvöldinu. Það voru allir svo glaðir og ánægðir og mikil ást í loftinu.“

Hvernig er lífið búið að vera síðan þið giftust hvort öðru?

„Lífið er búið að vera æðislegt en við erum enn að kveðja erlendu gestina sem komu og undirbúa 1 árs afmæli dóttur okkar þannig að það er nóg að gera. Við afþökkuðum brúðargjafir en gestir gátu lagt framlag í sjóð til styrktar pörum sem þurfa aðstoð við fjármögnun á glasafrjóvgun,“ segir Berglind.

Hvers vegna gerðuð þið það?

„Við fórum sjálf í fjölmargar tæknifrjóvganir áður en dóttir okkar kom í heiminn. Við vitum hvað þetta tekur mikið á og hversu dýrt ferlið er. Við höfum heyrt af fólki sem hefur ekki getað farið í tæknifrjóvgun því það hefur ekki haft efni á því. Okkur langaði að styrkja pör til þess að gera það. Við vorum lánsöm að geta gert þetta. Fengum loksins fallega og yndislega dóttur. Okkur langaði að það kæmi líf og hamingja fyrir aðra út úr brúðkaupinu okkar,“ segir Berglind.

Hvernig tók fólk í þetta? „Alveg ótrúlega vel. Allir tóku þátt og við erum svo spennt að fara að geta aðstoð aðra“ segir hún.

Ljósmynd/Sunday & White Studio
Ljósmynd/Sunday & White Studio
Ljósmynd/Sunday & White Studio
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál