„Þetta er hræðileg lífsreynsla og ég gleymi þessu aldrei“

Sigurður Þ. Ragnarsson.
Sigurður Þ. Ragnarsson. Ljósmynd/Frikki

Sigurður Þ. Ragnarsson er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Sigurður, oftast kallaður Siggi Stormur, segir í þættinum alls kyns sögur af ferlinum í sjónvarpi, meðal annars þegar byssa birtist við höfuð hans í beinni útsendingu. 

„Ég var að fara að segja veðurfréttirnar eins og gengur og gerist. Ég man að það var leiðindaspá í kortunum þennan dag og á bakvið mig var græna teppið (greenscreen) sem veðurkortinu var jafnan varpað upp á og ég horfi á skjáinn þar sem ég sé sjálfan mig í hlutföllum við veðurkortið. Nema allt í einu sé ég mynd af byssu sem er miðað á hausinn á mér í staðinn fyrir veðurkortið. Pródusentarnir sem voru í eyranu á mér gátu ekki annað en farið að skellihlæja og ég fer að hlæja líka. En náði í millitíðinni að segja: „Spáin er reyndar ekki alveg svona slæm!!“

Siggi vakti á sínum tíma mikla athygli fyrir létta framkomu í veðurfréttum og að segja fréttir á mannamáli. 

„Ég fann mjög fljótt löngun til að miðla þessu til fólks á mannamáli. En það var oft aftast í hausnum á manni þessi hugsun að maður væri jafnvel að setja sjálfan sig niður með því að vera ekki of alvarlegur. En það er hægt að vera mjög samviskusamur, duglegur og góður í starfinu sínu, án þess að vera alltaf eins og maður sé alvarleikinn einn. En auðvitað grínast maður ekki með veðurfréttir þegar veður eru válynd.“

Sonurinn veiktist alvarlega í desember 2021

Sonur Sigurðar veiktist mjög snögglega alvarlega í desember 2021. Hann var strax settur í öndunarvél á gjörgæslu. Síðan þá hefur hann meira og minna verið inni á spítala. Sigurður segir allt breytt eftir þetta.

„Þetta er hræðileg lífsreynsla og ég gleymi þessu aldrei. Ég var staddur í útlöndum þegar það hringir í mig kona frá gjörgæsludeildinni og segir mér að drengurinn minn sé kominn í öndunarvél, sé í lífshættu og staðan sé alvarleg. Við hjónin áttum flug nokkrum dögum síðar, en keyptum miða daginn eftir og komum. Svo byrjar tími sem er þannig að fyrst tekur maður þetta allt á hnefanum og er bara í sjokki. Það er stanslaus kvíði í maganum, en síðan gerist það að þegar áfallið fer að lengjast þá tærist maður smám saman að innan og maður fer að endurhugsa allt varðandi lífið. Það sem manni fannst merkilegt áður skiptir mann nánast engu máli í dag. Hver einasti dagur snýst meira og minna um það hvaða fréttir maður muni fá í dag,“ segir Sigurður. 

Árni Þórður, sonur Sigurðar, er enn á spítala og hefur nú verið meira og minna inniliggjandi í níu mánuði. Það hefur eðlilega tekið gríðarlega á Sigurð og fjölskylduna alla.

Máttvana og hjálparlaus

„Maður er svo innilega máttvana og hjálparlaus í þessari stöðu og þetta setur einhvern vegin allt annað í lífinu í rétt samhengi. Auðvitað er það hann sem er að berjast fyrir lífi sínu, en þetta tekur gríðarlegan toll af aðstandendum. Eitt af því sem ég hef gert er að segja fólki frá ferlinu á samfélagsmiðlum og ég finn að það hjálpar. Sumir hafa samt fundið hjá sér þörf fyrir að hnýta í mig fyrir það og segja að ég sé að nota veikindi stráksins míns til að fá athygli í stjórnmálunum. Það eina sem ég vil segja við þetta fólk er að þetta er mín leið til að reyna að halda sönsum í gegnum allt þetta ferli.“

Sigurður hefur talað um það opinberlega að hann glími við skammdegisþunglyndi og þess vegna reynir hann að komast reglulega í sól og birtu erlendis yfir vetrarmánuðina. 

„Ég er í mörg ár búinn að glíma við skammdegisþunglyndi og á mjög erfitt með þetta mikla myrkur. Þegar ég fer til Spánar er ég ekkert endilega að sækjast í hita, heldur meira orkuna sem fylgir dagsbirtunni. Þá fer D vítamín framleiðslan að fara betur af stað og maður verður einhvern vegin brattari allur. Ég fer stundum í nokkra daga bara einn og kem heim mun betri. Skammdegisþunglyndi er raunverulegur hlutur.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál