Jón Gunnar og Margrét giftu sig eftir átta ára samband

Jón Gunnar Þórðarson og Margrét Helga Erlingsdóttir ásamt dætrunum Glóeyju …
Jón Gunnar Þórðarson og Margrét Helga Erlingsdóttir ásamt dætrunum Glóeyju Jónsdóttur, Ísabellu Ellen Jónsdóttur og Elísabetu Sophie Jónsdóttur. Ljósmynd/Ívar Eyþórsson

Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri Mussila og Margrét Helga Erlingsdóttir fréttamaður á Bylgjunni og Stöð 2 gengu í hjónaband um síðustu helgi. Þau hnutu um hvort annað fyrir átta árum og hafa verið trúlofuð í fimm ár. Hjónin eiga þrár dætur sem eru 21 árs, 6 ára og 1 árs. 

„Dagurinn var yndislegur og sólin skein. Við hefðum eiginlega ekki getað beðið um betra veður og gátum notið þess að vera mikið úti. Athöfnin sjálf fór fram í Háteigskirkju og séra Guðni Már Harðarson gaf okkur saman. Hann er algjörlega frábær prestur og náði að fanga okkar samband svo vel – maður fann að hann virkilega hlustaði á okkur. Bella okkar fékk það hlutverk að vera hringberi. Það var svo fallegt augnablik þegar hún opnaði hringaöskjuna. Við okkur blöstu tveir giftingahringir en inn á milli þeirra hafði hún, okkur að óvörum, komið fyrir sínum pínulitla hring. Hún fékk þannig fyrsta hringinn í þessari brúðkaupsathöfn,“ segir Jón Gunnar.

Hjónin lögðu mikla áherslu á að það væri falleg tónlist í brúðkaupinu. 

„Við sáum okkur leik á borði að geta búið til okkar „draumatónleika“ fyrir fólkið okkar. Við fengum okkar uppáhaldstónlistarfólk til að flytja okkar uppáhaldslög sem öll tengjast okkar ástarsögu með einum eða öðrum hætti. Högni Egilsson flutti lögin You‘ve got the love eftir Florence + the machine, og lagið sitt Innsæi. Rakel Sigurðardóttir söngkona og Hafsteinn Þráinsson fluttu lagið Fake empire og Slow Show eftir The National og einnig Heavenly eftir Cigarettes after Sex. Síðan tóku þau Rakel og Högni saman lagið I dare you eftir The XX. KK var síðan rúsínan í pylsuendanum og lauk athöfninni með laginu I want you eftir Bob Dylan. Allir listamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa svo mikla sál og útgeislun og gjörsamlega heilluðu alla upp úr skónum. Tónlistarflutningurinn var sérstakur hápunktur fyrir okkur hjónin, okkur finnst að þau þyrftu hreinlega að gefa þessi lög út til að fleiri fái að njóta snilldarinnar,“ segir hann. 

Eftir athöfnina héldu hjónin veislu í Elliðaárdalnum og fengu þau Jorra Kristjánsson til þess að stjórna veislunni. 

„Við byrjuðum partíið með djassbandi undir stjórn Tuma Torfasonar en bandið tók öll fallegu Parísarlögin. Stefán Viðarsson, eða Stebbi kokkur, einn eigenda Hnoss í Hörpu sá um matinn en við buðum upp á suðræðna sveiflu í matargerð en Stebbi og hans eðalteymi töfraði fram rétti frá Spáni, Mexíkó og Indlandi,“ segir hann.

Margrét Helga og Jón Gunnar gengu í hjónaband í Háteigskirkju.
Margrét Helga og Jón Gunnar gengu í hjónaband í Háteigskirkju. Ljósmynd/Ívar Eyþórsson

Vilhjálmur B. Bragason, leikari og uppistandari, skemmti veislugestum með óborganlegri grínsyrpu og allir engdust um af hlátri. Hin ofursvala Dj Erla náði síðan öllum á dansgólfið þar sem dansað var fram á rauða nótt. 

Högni Egilsson spilaði í athöfninni.
Högni Egilsson spilaði í athöfninni. Ljósmynd/Ívar Eyþórsson
KK tók lagið I want you eftir Bob Dylan.
KK tók lagið I want you eftir Bob Dylan. Ljósmynd/Ívar Eyþórsson
Rakel Sigurðardóttir söngkona og Hafsteinn Þráinsson fluttu lagið Fake empire …
Rakel Sigurðardóttir söngkona og Hafsteinn Þráinsson fluttu lagið Fake empire og Slow Show eftir The National. Ljósmynd/Ívar Eyþórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál