Þurfti að sleppa því að borða til að eiga fyrir náminu

Kristján Jóhannsson er gestur Sölva Tryggvasonar í þessari viku.
Kristján Jóhannsson er gestur Sölva Tryggvasonar í þessari viku. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Jóhannsson, óperusöngvari, er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Í þættinum lýsir hann tímanum þegar hann ferðaðist um allan heim og var einn stærsti óperusöngvari veraldar. 

„Þetta var yndislegur tími að fá að ferðast um allan heim og koma fram í stærstu óperuhúsum heims. Við vorum ung á þessum tíma ég og Sigurjóna konan mín og hún enn yngri en ég. En við ákváðum strax að við ætluðum að vera í þessu saman og við ferðuðumst saman hönd í hönd og flugum um allan heim og vorum með barnapíu líka. Þetta þótti svolítið skrýtið, af því að langflestir kollegar mínir voru bara einir „On the road“, en ég ferðaðist með alla fjölskylduna mína. Konan mín spilaði mjög stóran hlut í að láta þetta ganga svona vel og við gerðum mjög fljótt samkomulag um að vera ekki meira en hálfan mánuð í sundur, þrátt fyrir öll ferðalögin og það hefur gengið upp. Ég er ekkert alltaf sá besti í mannlegum samskiptum, en Sigurjóna var algjör snillingur í að eiga við stjórnendur í leikhúsum, umboðsmenn og fleiri. Mér þótti frábært að fá að vera laus við það, þannig að hún var í raun umboðsmaðurinn minn allan þennan tíma,” segir Kristján og heldur áfram:

„Fyrir 40 árum síðan, að gutti frá Akureyri væri komin í þennan stóra heim listanna, var ekki sjálfsagt og ég fann fyrir ákveðnum fordómum, sem ég lærði síðan að eyða smám saman í gegnum tíðina. Ég þurfti bara að læra á þennan heim og taka fólki eins og það er. Kannski var einhver vottur af karlrembu í mér, en ég rakst oft á veggi og varð önugur í samskiptum og stundum urðu árekstrar. En eftir að konan mín tók þessi samskipti meira að sér byrjaði þetta allt að ganga betur. Mitt hlutverk var þá aðallega að syngja eins og maður!”

Kristján lýsir í þættinum tímanum áður en hann fékk stóra tækifærið og segir að það hafi verið mikið hark. 

„Auðvitað byrjaði maður á einhverjum punkti að hugsa til þess að fara út og láta reyna á það að verða atvinnusöngvari, en ég var kominn með fjölskyldu ungur og varð að borga reikninga og fékk enga sérmeðferð. Ég var kominn með rekstur á litlu fyrirtæki, sem gekk vel, en það var mikil vinna og ég vann myrkranna á milli. Ég varð í raun að vinna eins og skepna og fylla alla vasa af peningum og hoppa svo í djúpu laugina og panta mér bara flug út aðra leiðina til Ítalíu. Það var svo enginn dans á rósum þegar ég kom þangað, en ég ætlaði bara að meika það og var alveg harður á að koma ekki heim með skottið á milli lappanna. Það var ekkert plan B, það var bara þetta eða kúlan í hausinn!!,” segir Kristján og heldur áfram:

„Stundum var ég orðinn helvíti blankur og kennararnir voru dýrir, þannig að það kom stundum fyrir að ég þurfti að sleppa því að borða í 1-2 daga til að eiga fyrir tímunum. Það fór allur peningurinn á tveimur árum og ég var skítblankur heillengi. Pabbi átti vini í bændastétt sem sendu mér annað slagið smá pening og þá var ég glaður að eiga fyrir leigu og mat þann mánuðinn. En þetta var mikið hark alveg þangað til að ég náði fyrsta „gigginu“. Eftir það fór allt af stað.”

Kristján er búinn að vera á Ítalíu lengi og elskar land og þjóð. 

„Ítalía er yndisleg og mér finnst ég á einhvern hátt vera hálfgerður Ítali. Þetta er upp til hópa yndislegt fólk, opið og tilfinningaríkt og getur rifist og elskað þig á sama tíma. Stutt í brosið og eldinn. Það er ekkert gaman ef það er ekki smá hiti í hlutunum og líf í fólki. Það er ,,dead boring” að vera alltaf sammála öllum og það verður bara flatneskja,” segir Kristján, sem segist ekki hafa tekið það mikið inn á sig að finna öfund frá Íslandi í gegnum árin.

Kristján segir að lífið hafi kennt sér að eitt það allra mikilvægasta sé umburðarlyndi, kærleikur og fyrirgefning:

„Ítalir segja oft að við séum bara gerð úr kjöti og beinum og eiga þá við að við séum öll bara mannleg. Við gerum öll mistök og verðum að fá að eiga möguleika á að bæta okkur þegar við gerum mistök. Það mikilvægasta er að vera heiðarleg manneskja og að vera heiðarlegur bæði við sjálfan sig og aðra, en við getum misstigið okkur. Guð almáttugur fyrirgaf og Jesú Kristur fyrirgaf og við verðum sjálf að kunna að fyrirgefa. Og fólkið þarna úti þarf að kunna að fyrirgefa mistökin líka, þau eru bara eðlilegur hluti af því að vera mennskur.”

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum á hlaðvarpsvef mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál