„Ég tengi brauðrétti við eitthvað gott“

Freyr Gígja Gunnarsson fréttamaður er einstakur áhugamaður um brauðrétti. Þegar …
Freyr Gígja Gunnarsson fréttamaður er einstakur áhugamaður um brauðrétti. Þegar Gunnar Alexander sonur hans fermdist í fyrra útbjó hann níu stykki. Ljósmynd/Samsett

Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður hjá RÚV, elskar heita brauðrétti. Þegar sonur hans fermdist í fyrra útbjó hann níu heita brauðrétti ásamt fleiru. Hann segir að fólk þurfi að vanda sig og það sé hans reynsla að fólk vilji fleiri brauðrétti og færri kökur. 

Nú ert þú þekktur fyrir ást þína á brauðréttum. Hvernig kviknaði sú ást?

„Ég tengi brauðrétti við eitthvað gott. Það er eitthvað skemmtilegt að fara að gerast þegar loftið fyllist af brauðréttailm. Það þýðir að fólk er í góðu skapi og ætlar að gera sér glaðan dag. Brauðréttir hafa fylgt mér alla tíð. Ég man ekki hvar ég fékk þann fyrsta, líklega hefur verið hent í brauðrétt þegar ég fæddist. Bæði amma Imba og mamma voru duglegar að gera brauðrétti og mamma gerir enn brauðrétti þegar það er eitthvað að gerast, hvort sem það eru fótboltaleikir eða brúðkaup,“ segir Freyr.

Hvernig var fyrsti brauðrétturinn sem þú smakkaðir?

„Fyrsti brauðréttur minna minninga er skinku- og aspasbrauðréttur, mjög klassískur, franskbrauð, rjómi, skinka, aspas, sveppir, allt að sjálfsögðu niðursoðið,“ segir hann.

Hvað myndir þú segja að væri lykilatriði þegar fólk útbýr brauðrétti?

„Það er vandvirkni. Ekki gera brauðréttinn á síðustu stundu og ekki koma fram við brauðréttinn eins og hann sé brauðréttur, komdu fram við hann eins og hann sé Wellingtonsteik á áramótunum,“ segir Freyr.

Hver er þinn uppáhaldsbrauðréttur?

„Brauðrétturinn sem hefur fylgt mér alla tíð er skinku- og aspasbrauðréttur og það er sá brauðréttur sem ég hef reynt að þróa aðeins áfram í gegnum tíðina.“

Er eitthvert hráefni sem má alls ekki setja í brauðrétti?

„Eins og forseti Íslands sagði, ekki setja ananas. Annars hef ég gert marga brauðrétti með „fínni“ hráefnum, eins og camembert-osti og ólífum, og þeir slógu í gegn hjá mjög brauðréttareyndum og vandlátum bræðrum mínum.“

Freyr er kvæntur Júlíu Margréti Alexandersdóttur blaðamanni. Í fyrra fermdu þau Gunnar, son sinn. Að sjálfsögðu var boðið upp á brauðrétti í veislunni og kom það í hlut Freys að útbúa þá.

Hvað útbjóstu marga brauðrétti og hvernig skipulagðir þú þetta?

„Ég útbjó níu heita brauðrétti og að auki fjórar skyrtertur, marmarakökur nokkrar, smurði flatkökur og svo pöntuðum við reyndar kaldar brauðtertur. Ættingjar hjálpuðu með marengskökur, litlar súkkulaðibitakökur, fermingarmarsípanköku og vegan-veitingar. Allt var þetta ógurlega gott en brauðréttirnir eins og alltaf, stálu sviðinu.

Til að gera svo marga brauðrétti skal ekki reyna að gera marga í einu heldur byrja á einum og klára hann, setja í kæli og byrja á næsta. Það er lykilatriðið. Ekki halda að þú getir gert 9 brauðrétti í einu. Ég gerði brauðréttina deginum áður, fullkláraði þá og svo var bara eftir að setja ostinn yfir og hita þá upp á fermingardaginn,“ segir hann.

Heitur réttur

1/2 franskbrauð, skorpan skorin af (lykilatriði)

250 g skinka, skorin í fremur litla bita

1 dós niðursoðinn aspas

safinn af aspasinum

1 askja sveppasmurostur

1/2 dl rjómi

125 g sveppir, ferskir, fremur þunnt sneiddir

2 tsk. sætt sinnep

1/2-1 teningur nautakraftur, eftir smekk

smjör

rifinn ostur að eigin vali

Fjarlægið skorpuna af franskbrauðinu og skerið brauðið í litla teninga. Skvettið svolitlu af aspassafanum yfir, en ekki öllum, þetta eru bara nokkrar léttar skvettur. Smyrjið eldfast mót með smjöri, engu öðru. Steikið niðurskorna sveppina og skinkuna á pönnu upp úr smá smjöri við meðalhita í nokkrar mínútur og leyfið safanum úr sveppunum að gufa upp. Takið fram meðalstóran pott, bræðið sveppasmurostinn saman við rjómann. Setjið aspasinn út í, tvær matskeiðar af aspassafa, sveppa- og skinkublönduna, sinnepið og nautakraftinn og nú þarf að passa sig að láta þetta alls ekki sjóða. Blandan þarf bara að bráðna saman og hitna. Þegar þessu er lokið er þessu hellt vel yfir brauðið. Að síðustu er rifinn ostur settur yfir allt saman og best er að hita réttinn við um 180 gráður Celsíus í 20 mínútur eða þar til osturinn er orðinn svolítið gylltur.

Hvað áætlar þú að fólk borði mikið af brauðréttum í einni fermingarveislu?

„Við vorum með tæplega 60 gesti og það fóru 8 brauðréttir. Aðeins einn var eftir. Svo ekki vanmeta heita brauðréttinn. Þrátt fyrir að sumum þyki hann hallærislegur þá er ást allra á honum til staðar,“ segir hann og hlær.

Ef þú værir að ferma núna, myndir þú gera eitthvað öðruvísi?

„Ég myndi hafa færri kökur og minna sætmeti og meira brauðkyns. Brauðmeti og ósætt er nokkuð sem fólk kann að meta og fær sér svo kannski 1-2 kökusneiðar. Fólk gerir líka kökur heima hjá sér en síður brauðrétti að eigin frumkvæði. Það er því pínu spari að koma í veislu og fá heitan brauðrétt.“

Gunnar Alexander Freysson fermdist í fyrra.
Gunnar Alexander Freysson fermdist í fyrra. mbl.is/Marta María
Freyr Gígja hefur elskað brauðrétti frá því hann var smásnáði.
Freyr Gígja hefur elskað brauðrétti frá því hann var smásnáði. Ljósmynd/Gottimatinn.is
Veisluborðið var glæsilegt.
Veisluborðið var glæsilegt.
Gunnar Alexander ásamt vinum sínum. Þeir heita Jóhann Hinriksson, Frosti …
Gunnar Alexander ásamt vinum sínum. Þeir heita Jóhann Hinriksson, Frosti Rúnar Birgisson og Guðmundur Flóki Sigurjónsson.
Freyr Gíga útbjó fjórar skyrtertur fyrir veisluna.
Freyr Gíga útbjó fjórar skyrtertur fyrir veisluna. mbl.is/Marta María
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál