Misstu 10-15 kíló á hverju sumri í neyslu

Aron Mímir Gylfason og Bjarki Viðarsson ræða um hroðalega neyslu …
Aron Mímir Gylfason og Bjarki Viðarsson ræða um hroðalega neyslu í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Ljósmynd/Youtube.com

Bjarki Viðarsson segir líf sitt hafa verið orðið sorglegt sambland af hroðalegri neyslu, óheiðarleika og lélegu leikriti þegar hann loks sneri við blaðinu. Bjarki og Aron Mímir Gylfason, sem halda úti hlaðvarpinu götustrákar eru nýjustu gestirnir í podcasti Sölva Tryggvasonar. Þeir hafa báðir komið til baka inn í lífið eftir áralanga neyslu og vilja nú láta gott af sér leiða. 

„Líf mitt var orðið einn stór óheiðarleiki, þar sem neyslan tók yfir allt. Þetta var í raun hræðilega sorglegt þegar ég horfi til baka. Ég var kannski búinn að vera nokkra daga á vökunni þegar ég fór nokkra metra út í náttúruna til að geta sett mynd af mér að skokka á Instagram, bara svo það lyti út fyrir að ég væri á beinu brautinni. Þegar ég var vakandi inni í herbergi að horfa á klám og spila tölvuleiki undir áhrifum fíkniefna í marga daga samfleytt þóttist ég hrjóta þegar ég heyrði í mömmu nálægt dyrunum og svo framvegis. Ég man eftir þar síðasta jóladegi, skömmu áður en ég varð edrú. Þá stóð ég upp þegar matarboðið var að byrja og sagðist verða að stökkva í vinnuna, keyrði svo á 140 í Mosfellsbæ að sækja fíkniefni og svo voru allir búnir að borða þegar ég kom til baka. Líf mitt var orðið einn stór lygavefur, sem er algjörlega hræðilegt og eykur bara á einangrunina og enn meiri neyslu. Ég man hvað það var miklu lóði lyft af bakinu á mér þegar það komst upp um mig, bara vegna þess að þá þurfti ég ekki að fela mig lengur og ljúga daginn út og inn,“ segir Bjarki.

Alkahólisminn varð verri og verri 

Saga þeirra félaganna er svipuð að mörgu leyti, nema Aron var meira í partíum og innan um fólk á meðan Bjarki einangraði sig. Aron segist yfirleitt hafa farið í fimmta gír í neyslu þegar sumarið var að koma. 

„Ég setti oftast allt á fullt þegar sumarið var að byrja. Alkóhólisminn þróaðist hjá mér og varð alltaf verri og verri, en þegar sumarið kom versnaði neyslan. Þá var ég yfirleitt vakandi samfellt í 4 daga og svaf svo í þrjá. Svo þegar skólinn byrjaði á haustin fékk ég að heyra hvað ég hefði lagt mikið af, þá var það út af öllu amfetamíninu og partýunum sem maður missti 10-15 kíló á hverju sumri,“ segir Aron og heldur áfram:

„Það er stundum kallað að fara á hvíta kúrinn þegar þú tekur nógu mikið amfetamín nógu lengi til að þú þurfir ekkert að borða. Þá grennist þú hratt. Svo bara vakir þú og spilar tölvuleiki út í eitt eða ert í partýum. En niðurtúrarnir eru hræðilegir og það lifa það ekkert allir af. Hjá mér var allur lífsvilji var farinn og í raun var tilveran bara hræðileg í alla staði.” 

Ennþá að bæta upp fyrri gjörðir

Aron segist enn vera að bæta fyrir það hvernig hann kom fram við fólkið sitt á meðan neyslan var sem mest. 

„Ég gerði hvað sem er til þess að ná mér í meira kókaín og var orðinn tilfinningalega dauður. Ég tók bílana hans pabba og skildi þá eftir einhvers staðar í bænum og svo var hann kannski á leið í vinnuna og enginn bíll heima. Ég var farinn að vera innan um harðkjarna glæpamenn og var bara orðið sama um allt. Ég var farinn að selja fíkniefni, en kom alltaf út á sléttu af því að ég notaði svo mikið sjálfur.

Ég er ennþá að reyna að bæta fyrir það hvað ég kom illa fram við mína nánustu þegar ég var í sem mestri neyslu. Eftir 3-4 ár af þessu var ég algjörlega búinn á líkama og sál og leitaði mér loksins hjálpar. Ég náði að vera edrú í 2 og hálft ár þar til að ég féll í ferð til Tenerife. Það tók mig 6 klukkutíma að missa algjörlega tökin. En eftir þá ferð fór ég aftur í meðferð og raunverulega byrjaði að gera allt sem mér var sagt að gera og hef verið edrú síðan,” segir Aron og Bjarki tekur í sama streng:

„Ég áttaði mig ekki á því að ég væri að halda fyrir henni vöku í 10 ár þar sem hún náði aldrei að slaka á af því að hún hafði svo miklar áhyggjur af stráknum sínum. Hún var að reyna að fá mig til að leita mér aðstoðar og vildi allt fyrir mig gera, en það gekk ekki neitt. Maður verður algjörlega blindur þegar maður er á þessum stað og maður áttar sig ekki á því hvað maður er að gera fólkinu sínu.“

Þeir Bjarki og Aron hafa báðir verið edrú í talsverðan tíma og segjast brenna fyrir það að hjálpa fólki sem hefur verið á svipuðum stað og þeir. Þeir hafa horft upp á vini og kunningja láta lífið af völdum fíkniefna og segja að það hefðu allt eins getað verið þeirra örlög. 

„Við höfum misst marga sem hafa verið samferða okkur, bæði kunningja, stráka sem voru með okkur í neyslu og góðan vin. Þessir drengir fengu aldrei að upplifa venjulegt líf eða fá að verða fullorðnir og það er auðvitað hræðilegt. Það er hluti af því sem við erum að reyna að gera með þessu Podcasti okkar. Bæði með því að deila okkar sögu og líka með því að fá til okkar fólk sem hefur farið í gegnum sambærilega hluti og náð að koma sér á beinu brautina. Það er mikilvægt að koma þeim skilaboðum út til ungs fólks að það sé von alveg sama hve djúpt maður hefur sokkið.“

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum á hlaðvarpsvef.is. 

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál