Ætlar alls ekki að kaupa Range Rover eða Volvo-jeppa

Snorri Másson er ritstjóri Ritstjóra.
Snorri Másson er ritstjóri Ritstjóra.

Snorri Másson fjölmiðlamaður segist hafa komist að því að fjölmiðlun sé eina vinnan sem honum finnist ekki hundleiðinleg. Snorri, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar ákvað sjálfur að hætta á Stöð 2 og hefur nú stofnað eigin fjölmiðil.  

„Ég vann á Stöð 2 þangað til núna í vor þegar ég ákvað að hætta sjálfur. Fyrst ætlaði ég að stofna fyrirtæki eða gera eitthvað allt annað og mátaði mig við þó nokkra hluti, en ég er bara þannig gerður að ég verð að vinna við eitthvað sem mér finnst skemmtilegt. Þegar ég hef unnið við að búa til viðburði, eða fundarstjórn eða annað þvíumlíkt enda ég alltaf á að þurfa að pína mig með afli til að vinna vinnuna mína af því að mér finnst hún svo leiðinleg. Það að vinna við fjölmiðlun, skrifa greinar er eina vinnan sem ég hef unnið sem lætur mér ekki líða þannig. Þegar ég er með grein í vinnslu er ég að hugsa um það allan daginn og það að setja niður og skrifa nærir sál mína niður í dýpstu rætur. Þannig að ég er bara dæmdur til að vera blaðamanna-lúser!“

Vill vera hluti af lausninni

Snorri hefur sem fyrr segir stofnað fjölmiðilinn Snorri Másson ritstjóri. Samhliða efni sem þar birtist, en um er að ræða áskriftarvefsíðu, fer Snorri vikulega yfir fréttir vikunnar í sérstökum fréttaþætti í sjónvarpi á öllum hugsanlegum samfélagsmiðlum.

„Fyrst ætlaði ég að vera með vikulegt innslag, en eftir að ég fann Substack kerfið ákvað ég að hafa þetta stærra og aðeins öðruvísi. Ég vil vera hluti af lausninni, en ekki hluti af vandanum í íslensku samfélagi. Ég veit að það er eftirspurn eftir fjölmiðlafólki sem þorir að segja það sem það er að hugsa. Það er þörf á að blása nýju lífi í íslenska fjölmiðla sem mér finnst hafa verið í ládeyðu. Það er alla í það minnsta stór hópur af lesendum sem finnst ekki að það sé verið að tala við þau. Ég vil geta ferðast á milli meginstraumnum og skrýtinna kenninga á netinu og brúa bilið þarna á milli. Ég vil gera mitt besta til að útskýra allt fyrir öllum,” segir Snorri, sem segir nýja miðilinn ganga vonum framar.

„Ég skrifa núna fyrir lífi mínu eins og Dostoevsky og reyni að vera með 2-3 góðar greinar á viku fyrir utan annað efni og það gengur mjög vel. Maður gefur auðvitað ekki upp viðskiptaáætlunina, en ég er á góðri leið með að ná hærri tekjum en í fyrri vinnu með öðru sem ég er að gera núna. Draumurinn er að stækka starfsemina og ráða annað blaðamann í vinnu. Ef ég næ að tvöfalda tekjurnar mun ég ekki fara beint í að kaupa Range Rover eða Volvo XC 90, þó að vissulega væri ég til í BMW eða góða þýska bifreið. En ég mun geyma kaupin á þýsku bifreiðinni á meðan ég vil stækka fyrirtækið. Það væri frábært að ná að ráða allavega einn blaðamann í vinnu með mér.“

Getur sagt það sem hann vill

Í þættinum ræða Sölvi og Snorri um miðlun upplýsinga í gegnum tíðina og hvernig hún hefur breyst. Snorri segir framtíðina mætta og að hann ætli að taka þátt strax.

„Að það sé hægt sé að miðla efni beint til lesenda án milliliða eins og stórra fjölmiðla eða stofnana er algjör bylting í upplýsingamiðlun fyrir mannkynið. Sú bylting er rétt að hefjast og ég ætla að vera með í henni. Auðvitað nýtur maður að mörgu leyti frelsis sem blaðamaður á meginstraumsmiðli, en það er svo stutt í að blaðamenn fari að ritskoða sjálfa sig þegar þeir vinna á stórum fjölmiðli eða í stofnanaumhverfi. Svo er þessi stöðuga krafa um hlutleysi svo þrúgandi, óáhugaverð, leiðinleg bælandi og fölsk. Nú get ég sagt nákvæmlega það sem mér sýnist og fólk má hafa skoðun á því, en það kemur ekki frá yfirmanni og það er talsvert annað umhverfi að vinna í.”

Snorri segir að það að eignast barn og fjölskyldu hafi breytt sér í grundvallaratriðum og að það hafi hjálpað sér að finna hugrekkið til að stofna fyrirtæki og byrja að vera hann sjálfur.

„Ég get ekki beðið lengur með hlutina sem ég ætla að gera, ég þarf bara að byrja að gera þá núna strax. Ég þarf að vera sá sem ég er og segja það sem ég er að hugsa. Ég held að það séu mjög margir sem eru í einhverjum störfum og stöðum í samfélaginu sem eru hræddir við að segja það sem þau eru að hugsa. Hugsunin er þá að þú ætlir að byrja að verða þú sjálfur og sýna hugrekki einhvern tíma seinna þegar staðan er breytt. En ég  held að það sé blekking. Þú verður alveg jafnhræddur í framtíðinni. Það er ekki eftir neinu að bíða.” 

Hægt er að nálgast viðtalið við Snorra á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál