Lífrænt og ódýrt leynitrix stjarnanna

Lady Gaga og Gwyneth Paltrow hafa kannski efni á því að nota einungis vörur frá fínustu snyrtivöruframleiðendum heims en þær nota líka ódýru sápuna hans Dr. Bronner.

Sápa Dr. Bronner hefur verið framleidd um áratuga skeið og fæst í Bandaríkjunum og Bretlandi fyrir sem samsvarar tæpum 500 krónum. Hún er 100% lífræn og fer því afar vel með húðina auk þess sem líka er hægt að nota hana til að hreinsa í raun hvað sem er. Á meðal dyggra aðdáenda má nefna Lady Gaga, Gwyneth Paltrow, Drew Barrymore og m.a.s. Eminem samkvæmt vef Daily Mail.

Dr. Bronner fæddist í í Þýskalandi árið 1908 í fjölskyldu sápugerðarmanna. Hann flúði til Bandaríkjanna þegar honum leist ekkert á uppgang nasista í heimalandinu og hóf að framleiða sápur fjölskyldunnar þar. Síðar fannst póstkort sem faðir hans hafði skrifað honum en ekki fengið að senda en á því stóð; „Þú hafðir rétt fyrir þér - Þinn elskandi faðir“.

Sápa Bronners fæst í níu mismunandi útgáfum en sú upprunalega, með piparmyntu, hefur löngum verið vinsælust. Enn í dag má sjá friðarboðskap Dr. Bronners á miðum sápuflasknanna þrátt fyrir að hann hafi sjálfur látist árið 1997. Segir fjölskylda hans að miðanum muni ekki breytt nema lög krefjist þess.
 

mbl.is