Ætlaður konum sem þekkja styrkleika sína

Íburðarmikil og vegleg ilmvatnsflaskan greip augu mín við fyrstu kynni af nýjasta ilmvatni Versace sem nefnist Dylan Blue Pour Femme. Þú getur gleymt látlausri skandinavískri hönnun þegar kemur að ítölsku tískuhúsunum og ég var minnt á það þegar djúpblá og gyllt flaskan stóð á borðinu fyrir framan mig en hönnun hennar vísar í gríska goðafræði og tekst það vel. Svo vel reyndar að ég er þegar farin að ímynda mér sjálfa mig í hvítum vafningi hér að skrifa, borðandi vínber sem myndarlegur maður heldur fyrir ofan mig með blómakrans á höfðinu. Það er magnað að ilmvatnsglasið geti tekið hugann í slíkt ferðalag, sérstaklega þegar staðreyndin er sú að ég sit hér í íþróttagalla, með tagl í hárinu og gleraugu. Langt frá því að vera sú gyðja sem ég sé fyrir mér en þökk sé Versace líður mér að minnsta kosti eins og gyðju.

Gríska goðafræðin spilar stórt hlutverk hjá ítalska tískuhúsinu en höfuð Medúsu er einkenni þess. Af hverju Medúsa? Versace-systkinin léku sér gjarnan í rústum í Róm þar sem höfuð Medúsu var málað á gólfið. Gianni Versace, stofnandi tískuhússins, ákvað því að nota þessa fígúru úr grísku goðafræðinni sem tákn hönnunar sinnar því hún lét fólk verða ástfangið af sér og þá varð ekki aftur snúið. Versace vildi að hönnun sín hefði sömu áhrif á fólk.

Þegar Donatella Versace ákvað að láta hanna nýtt ilmvatn fyrir tískuhúsið vildi hún hanna ilm sem væri óður til kvenleikans eins og hann birtist henni og sagði:

„Ég hannaði sterkan, þokkafullan ilm sem er þó fágaður og er ætlaður konu sem þekkir sína styrkleika.“

Hún fékk ofurnefið Calice Becker til samstarfs við sig og varð útkoman blóma- og ávaxtakenndur ilmur sem liggur á grunni viðartóna. Toppnótur ilmvatnsins eru sólber, epli, smári og gleym-mér-ei en hjartað einkennist meðal annars af rósum, jasmínu og ferskjum. Botn ilmvatnsins samanstendur svo af hvítum við, hvítum blómum, musk og patchouli. Þegar ég fann ilminn fyrst kom ákveðin skerpa af hvítum blómum og eplum en þegar ilmurinn þróaðist á húðinni fór ég að finna aukinn ilm mjúkum viðartónum. Ilmurinn endist mjög vel á húðinni, heldur skerpu sinni svo þó hann sé ferskur er hann samt kvenlegur. Ég átti von á talsvert þyngri ilm úr svo íburðarmikilli ilmvatnsflösku og því kom það mér skemmtilega á óvart að þó flaskan sé í raun stofudjásn held ég að ilmurinn muni höfða til margra á ólíkum aldri. Sem fyrr segir er ilmvatnsflaskan djúpblá á litinn sem endurspeglar Miðjarðarhafið; sterkt, djúpt og dularfullt. Gyllingin á flöskunni undirstrikar verðmætt innihald hennar og höfuð Medúsu er bæði á flöskunni og tappanum, sveipað gyllingu sömuleiðis.

Auglýsingaherferð ilmvatnsins er tekin af Bruce Weber sem sagðist hafa sótt innblástur í gönguferðir sínar í New York. „Á ferð minni sá ég allar þessar líkamsræktarstöðvar þar sem konur voru að æfa og verða sterkari. Ég hugsaði til þeirra þegar ég tók þessar myndir og mætti segja að þær séu tileinkaðar þeim,“ sagði Weber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál