Vonar að íslensk hönnun fari á flug í niðursveiflunni

Alda Júlía keypti sér þennan kjól þegar hún setti sér …
Alda Júlía keypti sér þennan kjól þegar hún setti sér markmið að kaupa flík með munstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alda Júlía Magnúsdóttir er með skrautlegan stíl og kaupir sér aðallega flíkur í fínni kantinum. Hún er menntuð í viðskiptafræði með áherslu á tísku og hefur háskólanám hennar haft áhrif á hvað hún kaupir og hvernig hún notar fötin sín. 

Alda Júlía er með BS-gráðu frá Amsterdam Fashion Institute. Hún lýsir náminu sem viðskiptafræði með aukapakka. 

„Við lærðum allt sem tengist viðskiptafræði en út frá tískuiðnaðinum. Fórum alveg út í textílgreiningu. Lærðum um allt sem þú gætir þurft að hugsa um í tískuiðnaðinum, meðal annars framleiðslu. “

Litríku dúskarnir gera töskuna óvenjulega.
Litríku dúskarnir gera töskuna óvenjulega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alda Júlía var 25 ára þegar hún hóf námið og segist hafa verið nokkuð meðvitaður neytandi áður en hún fór í skólann.

„Ég hef alltaf reynt að hugsa vel um það sem ég kaupi mér. Ég var ekki að kaupa mér eitthvað sem ég notaði ekki. Mér fannst það til dæmis ekki vera eitthvað sem ætti að monta sig af þegar stelpur voru að tala um að þær ættu föt inni í skáp sem þær voru ekki búnar að taka miðann af.“

Í náminu úti í Amsterdam áttaði Alda Júlía sig á hversu slæm áhrif tískuiðnaðurinn hefur á umhverfið. 

„Maður labbaði út úr náminu í áfalli. Hvaða iðnaður er þetta? Ég reyni mjög mikið að hugsa um hvort það hafi verið börn sem bjuggu til fötin mín. Ef verðið er of gott til að vera satt þá er einhver annar sem borgaði það. Ég reyni alltaf að kaupa eitthvað sem passar inn í skápinn minn og ég sé fram á að nota.“

Alda Júlía er sumarleg í skrautlegum jakka og hvítum buxum.
Alda Júlía er sumarleg í skrautlegum jakka og hvítum buxum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenskir hönnuðir þurfa stuðning

Alda Júlía segist kaupa mikið á netinu og fylgist vel með ungum fatahönnuðum. Hún fylgist líka með íslenskri fatahönnun og skrifaði einmitt ritgerð um aðstæður íslenskra frumkvöðla á sviði fatahönnunar í meistararitgerð sinni frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. 

„Þar tók ég viðtöl við sjö hönnuði sem voru allar búnar að vera með rekstur í nokkurn tíma og féllu undir það að vera frumkvöðlar. Hálfu ári eftir að ég tók viðtölin voru þær allar hættar rekstri. Þær voru með búðir en voru búnar að færa sig út úr því að vera sjálfar með búðarrekstur og sinna þessu saman. Í síðustu kreppu fór íslenski fataiðnaðurinn rosalega á flug og ég er að vona að það gerist aftur núna. Það er alltaf verið að tala um að það eigi að auka nýsköpun. Fatahönnun getur fært landinu ótrúlega mikið. Það þyrfti miklu meira utanumhald um þetta og stuðning.“ 

Alda Júlía er hrifin af höttum.
Alda Júlía er hrifin af höttum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alda Júlía segir það alls ekki vonlaust að vera fatahönnuður á Ísland en margt mætti vera betra. Hæfileikarnir eru fyrir hendi en það vantar meiri rekstrarlegan stuðning frá yfirvöldum að hennar mati. Alda Júlía segir fatahönnuði einfaldlega ekki hafa tíma til að sinna öllu sem viðkemur fyrirtækjarekstri.

„Þú getur ekki verið að hanna heilu línurnar, sauma þær og láta framleiða þær á sama tíma og þú átt að standa vaktina í búðinni þinni og selja.“

Fer eftir góðri reglu frá ömmu

Alda Júlía leggur mikið upp úr því að nota fötin sín vel og segist þannig til dæmis friða samviskuna. Hún keypti til dæmis tjullpils á Asos sem hún hefur notað yfir 70 sinnum. Pilsið er gott dæmi um hversu skrautlegur og sparilegur stíll Öldu Júlíu er. Hún segist meðal annars hafa mætt í pilsinu í vinnuna. Ólíkt mörgum öðrum sem temja sér að kaupa sjaldan föt og nota fötin vel á Alda Júlía ekki klassískar flíkur á borð við bláar gallabuxur auk þess sem einu stigaskórnir hennar eru sjálflýsandi. 

Alda Júlía gengur mikið í þessu fallega tjullpilsi.
Alda Júlía gengur mikið í þessu fallega tjullpilsi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alda Júlía fer óhefðbundnar leiðir í að raða saman flíkum. Það er ekkert eitt ákveðið bannað en lykillinn felst í því að velja eina flík eða aukahlut í aðalhlutverk hverju sinni. 

„Ég kom einu sinni í rauðum kjól og í gulri peysu yfir og maðurinn minn sagði að ég væri eins og hálfþroskuð paprika. En þetta fer líka eftir því hvernig manni líður í fötunum. Ég held að amma mín hafi sagt: Eitt af þremur; kjóllinn má vera stuttur en ekki líka þröngur og fleginn. Þú þarft að velja eitt af þessu. Þú mátt ekki vera með risastórt hálsmen, risastóra eyrnalokka og alla hringana. Þetta snýst um að velja einn fókuspunkt.“ 

Áberandi skartgripir.
Áberandi skartgripir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Amma Öldu Júlíu hafði mikil áhrif á hana og kynnti hana snemma fyrir tísku.

„Amma mín var rosalega flott kona og átti mikið af klæðskerasaumuðum kjólum. Ég er nefnd eftir henni og við vorum góðar vinkonur. Þegar ég var tíu ára setti hún mig í allt of stóra hælaskó af sér og lét mig labba um húsið, upp og niður stiga, með bók á höfðinu til að kenna mér að ganga á háum hælum.“

Skórnir fá að njóta sín upp á hillu.
Skórnir fá að njóta sín upp á hillu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Er eitthvað á óskalistanum fyrir sumarið?

„Ég er þriðja árið í röð að hugsa um hvort ég eigi að kaupa mér klassískan rykfrakka. Nú er ég samt að meta hvort blazerjakki úr siffonefni með blómamynstri sé kannski frekar málið,“ segir Alda Júlía sem þarf að vega og meta fatakaup sín vel og það getur tekið sinn tíma.

mbl.is