Rebekka myndi aldrei setja þetta á andlitið

Rebekka Einarsdóttir förðunar- og snyrtifærðingur hjá Snyrtistofunni Dimmalimm.
Rebekka Einarsdóttir förðunar- og snyrtifærðingur hjá Snyrtistofunni Dimmalimm.

Rebekka Einarsdóttir förðunar- og snyrtifræðingur starfar á snyrtistofunni Dimmalimm. Hún segir að fólk hugsi miklu betur um húð sína í dag en það gerði áður. Hún segir að fólk eigi að fá ráð hjá snyrtifræðingi þegar það velur sér húðvörur en sjálf myndi hún aldrei setja matvæli á andlitið eins og kanil og kókósolíu. 

Hvað myndir þú segja að væri helsta trendið í dag í húðumhirðu?

„Ég er afar ánægð með það hvað við erum orðin meðvituð um mikilvægi þess að nota sólarvörn. Það á að vera og verður vonandi varanlegt skref í húðrútínu allra,“ segir Rebekka. 

Hvað getum við gert til þess að hugsa betur um húðina?

„Það hljómar eflaust ekki vel fyrir alla en það er engin töfralausn þegar kemur að húðinni og húðumhirðu. Ég tel að besti árangurinn komi af góðri rútínu, réttum innihaldsefnum og viðeigandi meðferðum,“ segir hún. 

Áttu eitthvert gott ráð fyrir konur sem vilja yngja sig upp?

„Hver aldur hefur sína fegurð. Ég mæli með að fá aðstoð hjá snyrtifræðingi við val á meðferðum og húðvörum í takt við þarfir og markmið,“ segir Rebekka.

Hver er þín eigin húðrútína?

„Það sem ég held mest upp á eru reglulegar ávaxtasýrumeðferðir og að sjálfsögðu sólarvörn. Daglega nota ég Urban Shield SPF30 frá Skin Regimen.“

Finnst þér fólk vera að spá í innihaldsefnin í húðvörum?

„Já, það er svo sannarlega orðið algengara að fólk spái meira í innihaldsefni og virkni.“

Hvaða húðvörur dreymir þig um að eignast?

„Ég held það sé bara ekkert sem ég á ekki.“ 

Hvað myndir þú segja að væri vinsælast í snyrtibransanum akkúrat núna?

„Að greiða augabrúnirnar upp með sápu eða „brow lamination“ er mjög vinsælt núna.“

Hvað myndir þú aldrei setja á húðina?

„Ég er ekki hrifin af því að nota matvæli í andlitið, sama hvort það er sítróna, kanill eða kókosolía.“

mbl.is