Eldfjallahúfur rjúka út

Eldfjallahúfurnar hafa verið vinsælar síðastliðna vikuna.
Eldfjallahúfurnar hafa verið vinsælar síðastliðna vikuna. Ljósmynd/The Icelandic Hat Company

Halldór Eyjólfsson hjá The Icelandic Hat Company segir að þau hafi séð mikla aukningu í sölu á eldfjallahúfunni. Húfurnar eru ekki glæný hönnun þó svo skemmtilega vilji til að húfunni svipar mikið til eldgossins í Geldingadölum. 

„Það hefur verið mjög mikill áhugi á þeim, sem er bara mjög gaman. Við höfum séð kipp í sölunni en við settum þær bara nýlega aftur í sölu,“ segir Halldór í viðtali við mbl.is.

Eldgoshúfurnar komu á markað fyrir um þremur árum og fóru þá í sölu í öllum helstu ferðamannabúðum landsins. Þegar heimsfaraldurinn hófst voru þær teknar úr sölu. 

„Við byrjuðum með víkingahjálmahúfurnar fyrir alveg 10 árum. Síðan erum við búin að vera með eldgosahúfuna og jöklahúfuna í tvö til þrjú ár,“ segir Halldór. Halldór hannaði húfurnar sjálfur en hugmyndina að víkingahjálmahúfunum fékk hann þegar hann var við veiðar í Laxá í dölum og varð hugsað til bæjar Eiríks rauða í Haukadal, sem er næsti dalur við Laxárdal. 

Eldfjallahúfan var ekki hönnuð með gosið í Geldingadölum í huga, …
Eldfjallahúfan var ekki hönnuð með gosið í Geldingadölum í huga, en er þó ansi lík því. Ljósmynd/The Icelandic Hat Company

„Fljótlega teiknaði ég upp hugmyndina og þróaði hana og lét prjóna hana hér á Íslandi en komst fljótlega að því að það svaraði ekki kostnaði að láta framleiða þær hér heldur fann mjög góða prjónaverksmiðju í Póllandi sem framleiðir og saumar allar gerðirnar fyrir mig núna,“ segir Halldór.

„Eldfjallahúfurnar hafa vakið mikla lukku nú síðustu daga og höfum við fengið mikið af fyrirspurnum um þær og sent þær um víðan völl, m.a. til Hollands, Kanada og Bandaríkjanna. Það skemmtilega við þær eru að þær eru nánast alveg eins og eldgosið í Geldingadal eins og það byrjaði,“ segir Halldór. 

Eldfjallahúfurnar koma nú í gjafapakkningu með fróðleik um háhitasvæði og eldgos og sama gildir um víkinga- og jöklahúfurnar. Þær eru fáanlegar í vefverslun The Icelandic Hat Company.

Jöklahúfan.
Jöklahúfan. Ljósmynd/The Icelandic Hat Company
mbl.is