Rándýr Fendi-úlpa gerir allt brjálað á Braski og bralli

Hér má sjá mynd af dýru úlpunni af vef Fendi.
Hér má sjá mynd af dýru úlpunni af vef Fendi. Samsett mynd

Allt logar í facebookhópnum Braski og bralli vegna úlpu sem þar er til sölu frá hátískumerkinu Fendi. Merkjavöruúlpan kostar 250 þúsund og þykir mörgum nóg um. Enn aðrir reyna að útskýra af hverju verðið er svona hátt. 

Seljandinn segir að hægt sé að ganga í úlpunni á réttunni og röngunni. „Úlpan er nánast ónotuð. Úlpan kostar ný 2.290 dollara,“ skrifaði seljandinn sem setur 250 þúsund krónur á úlpuna. Hægt er að skoða úlpuna á vef Fendi en eins og seljandinn greinir frá kostar ný úlpa 2.290 bandaríkjadali eða rétt rúmlega 290 þúsund íslenskar krónur á gengi dagsins í dag. 

Í hádeginu í dag, fimmtudag, var búið að skrifa 116 athugasemdir við innleggið í hópnum. 

„Hvað er hún saumuð úr hreinu gulli og tölurnar ekta demantar?“ skrifaði hneykslaður netverji. „Bara svona fyrir forvitnissakir, hvað er það sem verður til þess að hún kostar 2.290$, hvaða eiginleika hefur þessi úlpa umfram aðrar ódýrari gerðir,“ skrifar annar sem skilur ekkert í verðinu.

„Það kaupir þetta ekki nokkur maður! Það þyrfti að standa stórum stöfum utan á henni hvað hún kostar!“ skrifar annar netverji og fær það svar að margir borgi svona háa upphæð fyrir úlpu en líklega eru fáir af þeim í hópnum Braski og bralli. 

Ekki eru allir jafnkurteisir á síðunni. „Þú ert líka forljót,“ svaraði einn netverjinn þegar kona benti á að úlpan væri ekki einu sinni það flott. 

Svo voru aðrir sem reyndu að verja verðið á málefnalegri hátt. 

„Allar vörur frá Fendi eru gerðar úr hágæðaefnum og saumaðar af handverksfólki á Ítalíu en það er samt ekki bara efnið sem gerir svona vöru dýra, heldur líka hönnunin. Svona vara er ekki fyrir alla, sumum finnst hönnun og handverk ekki skipta miklu máli þegar kemur að fötum,“ skrifaði netverji sem skilur verðlagninguna. 

„Þetta lið þekkir ekki muninn á Fendi og nærbuxum keyptum í Bónus,“ skrifar netverji sem virðist kunna að meta merkjavörur. 

„Íslensk afbrýðisemi í hnotskurn. Falleg úlpa. Kostar sitt. Hefur efni á henni eða ekki, auðvelt að þegja ef ekki,“ skrifar netverji sem virðist setja út á umræðurnar sem sköpuðust um úlpuna.

mbl.is