Í smóking-fötum á Kjarval

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Um daginn sást til íslensks karls á Vinnustofu Kjarval við Austurvöll þar sem hann var búinn í sitt fínasta púss á hefðbundnum fimmtudegi. Hann var klæddur í glæsileg smóking-jakkaföt og var eins og James Bond lifandi kominn. Þegar félagar hans höfðu orð á því að hann væri kannski helst til of fínn í tauinu kom í ljós að þetta var það eina sem var hreint í fataskápnum hans.

Maðurinn hafði nýlega gengið í gegnum hjónaskilnað sem hafði skert lífsgæði hans töluvert. Sér í lagi þegar kom að fataskáp hans. Fyrrverandi eiginkonan hafði verið í sjálfboðaliðastarfi sem verkstjóri þvottahúss heimilisins. Hún hafði lagt mikinn metnað í þetta ólaunaða starf og séð til þess að maðurinn ætti alltaf hreinar nærbuxur og sokka, ætti stæðurnar af straujuðum skyrtum og pressuðum buxum og að bindin væru ekki með sósublettum. Þegar hún var ekki lengur hluti af lífi hans tæmdist fataskápurinn á ógnarhraða. Svo vaknaði hann þennan fimmtudag við þann súra raunveruleika að það eina sem hreint var í fataskápnum voru smóking-fötin sem hann hafði kvænst í á sínum tíma.

Ef maðurinn hefði verið að fara að útskrifast eða ganga í hjónaband hefðu fötin átt vel við en þar sem hann var bara að fara í vinnunna á skrifstofunni og drekka bjór með félögum sínum eftir vinnu þá stungu fötin dálítið í stúf. Hann var aðeins of mikið. Svolítið eins og fíll í dótabúð. Ekki er vitað hver örlög þessa manns urðu. Hvort hann hafi farið í smóking-fötunum í Kringluna daginn eftir og fyllt á fataskápinn eða hvort hann hafi lært á þvottavélina og ákveðið að taka málin í sínar hendur.

Líklegast er þó að hann hafi drifið sig í því að finna sér kærustu sem gæti séð um að þvo fötin hans svo hann gæti haldið áfram að vera sá sem hann er og þyrfti ekki að lyfta litla fingri í þvottahúsinu. Rannsóknir sýna að fólk leitar oftar en ekki í sama farið ef það fer í gegnum hjónaskilnað. Það er að segja ef það leitar sér ekki andlegrar aðstoðar til að fá meira út úr lífinu.

Þetta er svona eins og með konuna sem skildi við fyrsta eiginmann sinn því hann drakk aðeins of mikið um helgar en byrjaði svo með næsta manni sem drakk ekki bara um helgar heldur líka á virkum dögum. Það var ekki fyrr en hún fór að sækja Al Anon-fundi að hún áttaði sig á munstrinu sem hún var föst í.

Að öðru.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri leggur mikinn metnað í klæðaburð sinn og segir að fólk sem ætlar að láta taka sig alvarlega verði að klæða sig í samræmi við það. Eins mikið og smóking-föt mannsins á Kjarval stungu í stúf á fimmtudegi myndu netabolur og leðurbuxur stinga í stúf ef Ásgeir mætti í slíkum fatnaði þegar hann væri að kynna stýrivaxtabreytingar.

Ef það er eitthvað sem mæður drengja þessa lands gætu lagt til í uppeldinu þá væri það einmitt að kenna sonum sínum að vera snyrtilegir til fara. Kenna þeim á þvottavél, að strauja skyrtur, pressa buxur og hreinsa á sér húðina kvölds og morgna.

Þessar strákamæður þurfa þó að sýna þolinmæði og missa ekki móðinn þegar þeim líður eins og þær séu að tala við vegginn. Ef strákamæður þessa lands grípa ekki til sinna ráða gætu synir þeirra endað í smóking-fötunum á Kjarval. Það væri verra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »