Skynsamlegur stíll Angelu Merkel

Angela Merkel hefur komið sér upp hinum fullkomna fataskáp hinnar …
Angela Merkel hefur komið sér upp hinum fullkomna fataskáp hinnar vinnandi konu. Samsett mynd

Angela Merkel, fráfarandi kanslari Þýskalands, hefur búið sér til hinn fullkomna fataskáp fyrir hina vinnandi konu í gegnum árin. Merkel klæðist alltaf keimlíkum fatnaði; dökkum, víðum buxum, jakka, hálsmeni, flötum skóm og er með rúmgóða handtösku meðferðis. 

Konan á bak við fataskáp Merkel er tískuhönnuðurinn Bettina Schönbach sem rekur lítið stúdíó við ABC Strasse í Hamborg. Schönbach hefur aldrei rætt við fjölmiðla um samstarf sitt við Merkel, sem kann einmitt að vera ástæðan fyrir því að þær vinna saman. 

Schönbach hóf að hanna klæði Merkel árið 2005 eftir að hún sigraði í kosningum það árið. „Stíll er tjáning á ákvörðun sem manneskjan tekur oft,“ segir á vefsíðu Schönbach en þar segir einnig að hún hafi tileinkað sér það að „hjálpa viðskiptavinum að taka meðvitaðar ákvarðanir um sína persónulegu ímynd“.

Angela Merkel klæðist oft litríkum jökkum.
Angela Merkel klæðist oft litríkum jökkum. AFP

Merkel hefur alltaf haft það að markmiði að leyfa ekki fötunum sem hún klæðist að draga athygli frá því sem hún stendur fyrir. Stíl hennar, bæði tísku- og hinum pólitíska, má lýsa sem staðföstum, stöðugum, án skrautmuna en aldrei leiðinlegum. 

Grunnurinn er alltaf eins en Merkel leikur sér stundum með liti jakkanna. Sjálf hefur hún lítið talað um fatastíl sinn. Árið 2015 sagði hún við Süddeutsche Zeitung að stundum þyrfti hún að vanda valið. „Það koma tilvik þar sem ég þarf að vera í dökkum litum, þá er mér sagt að ég þurfi að standa fyrir framan hvítan bakgrunn, og þá þarf jakkinn að vera í léttari lit. Og stundum er ég einfaldlega í skapi fyrir eitthvað bjart og litríkt,“ sagði Merkel. 

Angela Merkel valdi blátt þegar hún hitti Katrínu Jakobsdóttur.
Angela Merkel valdi blátt þegar hún hitti Katrínu Jakobsdóttur. AFP

Merkel klæðist aldrei flíkum með munstri. Hún hefur einu sinni sést í kjól með munstri, árið 2008 þegar Óperuhúsið í Osló var opnað. Fyrirsagnir fjölmiðla daginn eftir ofbuðu kanslaranum svo mjög að hún ákvað að klæðast aldrei munstruðum flíkum aftur. 

Anna Wintour, ritstjóri tískutímaritsins Vogue, hefur hrósað stíl kanslarans. „Ég er hrifin af því að hún er með einkennandi stíl. Hún virkar á mig eins og manneskja sem veit hver hún er. Ég fæ ekki þá tilfinningu að hún sé að reyna að fela sig,“ sagði Wintour í viðtali við þýska fjölmiðla á dögunum.

Merkel valdi einnig blátt þegar hún heimsótti Elísabet Englandsdrottningu.
Merkel valdi einnig blátt þegar hún heimsótti Elísabet Englandsdrottningu. AFP
mbl.is