Jafnrétti er ekki einkamál

Anna Maggý.
Anna Maggý.

Nýr FO bolur UN Women á Íslandi kemur í sölu í dag. Líkt og í fyrra prýðir ljósmynd eftir ljósmyndarann Önnu Maggý bolinn, en hún tekur einnig ljósmyndirnar fyrir nýja FO herferð.  

Þetta er í annað sinn sem Anna Maggý og UN Women á Íslandi taka höndum saman og vinna að FO varningi. Anna Maggý kom að hönnun FO bolsins í fyrra, en sá seldist upp á einum og hálfum degi. Anna Maggý segir samstarfið við UN Women á Íslandi gefandi enda þyki henni skipta máli að taka þátt í verkefnum sem láta gott af sér leiða.

„Mér finnst skipta máli að taka þátt í verkefnum sem þessum. Jafnrétti er ekki einkamál kvenna, heldur mannréttindamál sem snertir okkur öll. Ekkert land í heiminum hefur náð að afnema að fullu þá mismunun og það ofbeldi sem konur og stúlkur verða fyrir vegna kyns síns. Í ár mun ágóðinn af bolnum renna til verkefna UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu. Jafnrétti verður ekki náð í heiminum ef við höldum áfram á sömu braut, á sama hraða. Við getum öll haft áhrif, til dæmis með því að kaupa FO bol og styrkja starf UN Women,“ segir Anna Maggý.

Skilaboðin skýr

FO bolurinn í ár er hvítur að lit og í unisex sniði. Falleg mynd eftir Önnu Maggý prýðir bak bolsins ásamt skilgreiningu á FO. Anna Maggý segist hafa lagt upp með að hafa myndina einfalda og hnitmiðaða.

„Myndin á bolnum er krumpuð ljósmynd með mjög skýrum skilaboðum: „Skýr og afgerandi afstaða gegn kynbundnu ofbeldi – alltaf og allstaðar“. Ég er mjög glöð með útkomuna.“

Anna Maggý hefur starfað sem ljósmyndari síðan hún var aðeins tvítug og þykir á meðal efnilegustu ljósmyndara landsins í dag. Hún á einnig heiðurinn af myndunum fyrir herferð UN Women. Myndirnar hafa vakið athygli enda þykja þær sérlega fallegar í einfaldleika sínum.

Allur ágóði af sölu FO bolsins 2021 rennur til kvenna og stúlkna í Mið-Afríkulýðveldinu en á hverri klukkustund er kona þar í landi beitt kynferðisofbeldi. Mið-Afríkulýðveldið hefur verið kallað gleymda ríkið þar sem staða íbúa þjóðarinnar er sérstaklega slæm eftir áratuga löng vopnuð átök. UN Women gleymir hins vegar ekki og veitir þolendum ofbeldis sálræna aðstoð sem og læknis- og lögfræðiaðstoð auk neyðaraðstoðar.

Vodafone er bakhjarl átaksins sem gerir UN Women á Íslandi kleift að senda allan ágóða sölunnar til UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu.

Ljósmynd/Anna Maggý
Ljósmynd/Anna Maggý
Ljósmynd/Anna Maggý
Ljósmynd/Anna Maggý
Ljósmynd/Anna Maggý
mbl.is