„Ég þráði breytingu í líf mitt“

Margrét Braga förðunarfræðingur Margrét Braga förðunarfræðingur
Margrét Braga förðunarfræðingur Margrét Braga förðunarfræðingur mbl.is/Árni Sæberg

Margrét Braga Geirsdóttir förðunarfræðingur fær útrás fyrir sköpunargáfuna þegar hún farðar sig og aðra. Margrét glímir við kvíða og þunglyndi og vill opna umræðuna. Það hjálpar henni stundum að dekra við sig þegar henni líður illa. 

„Þetta skreið aftan að mér rétt eftir framhaldsskóla. Ég var ráðvillt, vissi ekki hvað ég ætti að gera í framhaldinu. Ég vildi fara í leiklist en hafði enga trú á að ég gæti það svo ég var að reyna að finna mér eitthvað annað sem mér fannst ég ætti að gera. Sumarið var mér erfitt, ég var mikið uppi í rúmi og vildi ekki hitta neinn. Ég fékk ofsakvíðaköst sem lýsa sér þannig að ég á erfitt með andardrátt, stífna öll í líkamanum og grét stöðugt. Þunglyndið lýsir sér meira í einangrun, sjálfhatri og liggja upp í rúmi í dimmu herbergi,“ segir Margrét. 

Ætlar að láta draumana rætast

Í dag hefur Margrét ýmis tól sem stuðla að betri líðan. „Ég leitaði til sálfræðings sem hvatti mig svo til að leita til læknis. Ég fór þá á kvíðalyf sem hafa hjálpað mér alveg ótrúlega. Við sálfræðingurinn minn tölum um lyfin sem hækju. Ég var á svo slæmum stað að ég hafi lítinn sem engan áhuga á að hjálpa mér þangað til ég fékk lyfin og leið smá betur. Þá fóru hlutirnir að breytast. Ég var tilbúin í sjálfsvinnu, hjálpa sjálfri mér að líða betur. Ég byrjaði í hugrænni atferlismeðferð, sem ég nota ennþá. Í stuttu máli átti ég til dæmis að skrifa niður neikvæðar-  og kvíðahugsanir og skrifa mér svo tilbaka með rökhugsun.“

Margrét Braga förðunarfræðingur
Margrét Braga förðunarfræðingur Árni Sæberg

Síðan þá hefur Margrét öðlast meiri trú á sjálfri sér. Hún fann sig í förðunarnáminu og hefur sett stefnuna á leiklistarnám. Hana dreymir um að starfa við bæði leiklist og förðun í framtíðinni enda hefur tíska, förðun og hárgreiðsla alltaf verið mjög stórt áhugamál ásamt sviðslistum.  

„Ég byrjaði ung að mála mig og sá strax að það væri eitthvað sem ég væri góð í. Ég farðaði oft vinkonur mínar og systur mínar og gerði það ágætlega þrátt fyrir litla reynslu á förðun. En það var ekki fyrr en lok sumars 2021 sem ég upplifi mig svolítið ráðvillta um hvað ég ætti að gera um haustið, þetta hafði verið þungt ár og ég þráði breytingu í líf mitt. Eitt kvöldið var ég og systir mín að ræða saman um hvað væri næsta skref og við töluðum um förðun. Það tók ekki nema örfáar mínútur áður en ég var búin að rífa upp tölvuna og skrá mig í Make Up Studio Hörpu Kára og ég sé svo sannarlega ekki eftir því. Þessi tími í náminu gerði haustið að frábærum tíma, þar sem ég lærði svo margt um förðun, hár og svo margt annað. Ég hefði ekki getað beðið um betri tíma og kennslu,“ segir Margrét. 

Skiptir máli að opna umræðuna

Margrét er opin á samfélagsmiðlinum Instagram. „Ég sýni aðallega frá förðun, förðunarvörum, hárvörum og húðvörum. Einnig blanda ég því við mitt persónulega líf og legg mikið upp úr því að vera hreinskilin og sýna raunveruleikann,“ segir Margrét. 

Finnst þér sjálfsagt mál að vera opin á eins opinberum stað og á Instagram?

„Já, það er svo mikið af mögnuðu fólki sem hafa barist fyrir því að gera það að eðlilegum hlut að tjá sig um sín veikindi. Sem gerir það auðveldara fyrir fólk eins og mig að tala opinskátt um mín veikindi án þess að skammast sín. Það eru auðvitað alltaf þessar vangaveltur hversu mikið á ég að deila með fólki og hvernig ég ætla að koma því frá mér. Ég reyni þá bara að muna að gera og segja bara það sem ég treysti mér til að tjá mig um, kannski einn daginn mun ég segja frá öllu.“

Viðtökurnar hafa verið góðar að sögn Margrétar. „Það skiptir svo miklu máli að tjá sig um hlutina og upplifa ekki eins og maður sé einn. Ég fékk mikið af skilaboðum þar sem fólk upplifði sig í svipuðum sporum.“

Mikilvægt að líða vel í eigin skinni

Margrét leggur áherslu á að líða vel í eigin skinni þegar hún er spurð að því hvernig hún hugsar um útlitið. „Ég til dæmis hugsa mikið um húðina mína, ég vil hafa hana sem heilbrigðasta þar sem mér finnst hún undirstaða að svo mörgu, fallegri förðun og fleira. Svo eru það aðrir hlutir sem ég geri til að láta mig hreinlega líða betur eins og til dæmis að bera á mig brúnkukrem, fara í neglur, læt bretta upp á augnhárin og lyfta augabrúnunum og fer í ræktina. Það er nefnilega svo margt sem spilar inn í að líða vel í eigin skinni.“

Hefur förðunin eitthvað hjálpað í glímunni við andlega heilsu? 

„Algjörlega, þegar mér líður ekki nógu vel, hjálpar mér gífurlega að fara í sturtu, dekra við mig og setja á mig brúnkukrem, mála mig og klæðast fötum sem mér líður vel og flottri í. Það gæti kannski hljómað yfirborðskennt en að líta vel út þegar mér líður illa, að gefa mér tíma til að farða mig, gerir svo ótrúlega mikið fyrir mig andlega.“

Snyrtibuddan hennar Margrétar

Hvernig málar þú þig dagsdaglega?

„Ég nota CC kremið frá It Cosmetics sem grunn og blanda því oft við rakakrem til að fá léttari áferð. Hyljarann frá It Cosmetics nota ég á augnsvæði og á þá staði sem ég tel mig þurfa. Ég set nóg af kremuðum kinnalit frá Hourglass og sólarpúðri frá Hourglass. Laust púður set ég undir augu og á enni frá Laura Mercier. Á augabrúnirnar set ég augabrúnablýantinn frá Urban Decay og maskara svo augnhárin með maskaranum Better Than Sex frá TooFaced. Á varir set ég ljósbleikan eða ljósbrúnan varablýant og gloss eða varasalva.“

Kremaður kinnalitur fra Hourglass. CC-kremið frá It Cosmetics er er …
Kremaður kinnalitur fra Hourglass. CC-kremið frá It Cosmetics er er í miklu uppáhaldi. Á myndinni er einnig Urban Decay Glow Setting Spray. Ljósmynd/Árni Sæberg

En þegar þú ferð eitthvað spari?

„Ég byrja á Born This Way-hyljara frá TooFaced sem hylur vel á augnsvæði. Færi mig þá yfir í augnförðun, um þessar mundir er ég mikið í annað hvort augnblýantalúkki eða dökkbrúnum eða rauðbleiku augnskuggalúkki. Ég hreinsa svo í kringum augnsvæði ef eitthvað fór á húðina fyrir utan augnsvæði. Læt svo farðann Born This Way frá TooFaced á allt andlitið. Ég set svo kremaða kinnalitinn frá Hourglass á kinnbein, niður kinnarnar og smá nefið. Skyggi svo andlitið með möttu púðri frá TooFaced og fer svo yfir með sólarpúðri frá Hourglass sem hefur smá glansa í. Næst fer ég yfir í augabrúnir með augabrúnablýant frá Urban Decay og greiði svo hárin upp með Brow Freeze frá Anastasia Beverly Hills. Maskara svo augnhárin með maskaranum Better Than Sex frá TooFaced. Fer svo með dökkan varablýant eða augabrúnablýantinn og teikna á varirnar og set svo ljósan varalit yfir og strýk svo yfir þær með fingrum eða bursta svo línurnar séu ekki of skarpar á milli blýants og varalitar.“

Hvað tekur það þig langan tíma að gera þig til?

„Fyrir hversdagsútlit tekur það um það bil 15 mínútur en svona meira spari getur það tekið alveg tvo tíma þá með öllu, sturtuferð, hár og finna til föt.“

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég hugsa mjög vel um húðina mína þar sem ég hef alltaf verið með frekar slæma húð sem ég þarf að sinna vel. Einnig er svo mikilvægt í förðun að vera með hreina og góða húð undir farða, það gerir heildarútlitið svo margfalt fallegra.“

Í forgrunni er Naked-palettan Wild West frá Urban Decay. Laust …
Í forgrunni er Naked-palettan Wild West frá Urban Decay. Laust púður frá frá Laura Mercier er einnig á myndinni sem og varalitur frá Gosh og hyljarinn góði frá It Cosmatics. Ljósmynd/Árni Sæberg

Hvað finnst þér skipta máli að eiga í snyrtibuddunni?

„Klárlega númer eitt að vera með gott rakakrem og varasalva, sem hægt er að setja á þurrkubletti. Góðan hyljara sem hylur vel, kremaðan kinnalit, maskara og sólarpúður, sem ég nota líka stundum í augnskyggingu. Einnig finnst mér mikilvægt að eiga góðan augabrúnablýant, ég á til dæmis frá Urban Decay sem ég nota hann í svo ótal margt eins sem varablýant, augnlínu og auðvitað augabrúnir. Einnig skiptir máli að vera með góða bursta sem auðvelt er að vinna með.“ 

Uppáhalds snyrtivaran?

„Mínar uppáhalds vörur eru klárlega kremaði kinnaliturinn frá Hourglass, maskarinn Better Than Sex, Hourglass-sólarpúðrið og CC kremið frá It Cosmetics. Þetta eru allt vörur sem mér finnst vera framúrskarandi í fallegri áferð.“

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna fyrir sumarið?

„Mig dreymir um nýja bursta frá It Cosmetics. Ég prófaði í fyrsta skipta bursta frá þeim um daginn og fannst þeir frábærir. Mig langar líka í nýja fleiri liti í augnblýanta safnið mitt þar sem ég elska gott lænerlúkk. Einnig dreymir mig um kremuðu augnskuggana frá Smashbox og litaða dagkremið frá Halo.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál