„Sem betur fer erum við ekki öll eins“

Ríkey Magnúsdóttir er hæfileikarík listakona sem leggur stund á vöruhönnun …
Ríkey Magnúsdóttir er hæfileikarík listakona sem leggur stund á vöruhönnun í Listaháskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkey Magnúsdóttir er 23 ára listakona og nemi í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands. Hún hefur getið sér gott orð fyrir að færa líf í gamla sem og nýja strigaskó með því að teikna skemmtilegar myndir á skónna. Þá gefur hún líka gömlum og rispuðum vínilplötum nýtt líf og býr til listaverk úr þeim. 

Ríkey er sannarlega snillingur með penna og pensla og er sjálf yfirleitt með mjög litríka förðun og fer helst ekki út úr húsi nema vera búin að setja á sig litríkan eyeliner. 

„Ég byrjaði að mála á skó vorið 2020 þegar heimsfaraldurinn var að skella á. Ég átti eitt frekar sjúskað skópar sem mér fannst mega alveg við smá „glow-uppi“. Ég keypti einn bláan lit af leðurmálningu og málaði þá. Ég deildi myndum á Instagram og fékk líka þessi frábæru viðbrögð og eftirspurnin varð mikil,“ segir Ríkey. 

Ríkey byrjaði að mála skó í faraldrinum.
Ríkey byrjaði að mála skó í faraldrinum. mbl.is/Árni Sæberg

Plöturnar byrjaði hún að mála þegar hún veiktist sjálf af veirunni haustið 2020. „Ég var í einangrun og var alveg að truflast því að mig langaði svo mikið að mála. Ég var búin að mála á alla skó sem ég mátti mála á og átti enga striga. En ég átti nokkrar vínilplötur sem voru að syngja sitt síðasta þannig að ég hófst handa. Ég málaði plötu albúm af plötunni sem ég var að hlusta á á þeim tíma og það kom bara frekar vel út ef ég segi sjálf frá. Mér finnst það vera eitthvað heillandi við það að taka vínilplötu sem hefur sögu og tilgang en er orðin ónothæf til spilunar, en gefa henni nýja sögu og tilgang með því að gera hana að listaverki,“ segir Ríkey. 

Eftir að skórnir vöktu svona mikla athygli ákvað hún að stofna sér Instagram-síðu til að halda utan um listina sína og í gegnum þá síðu geta svo áhugasöm pantað sérsniðna list á skóna sína. 

Gamlar vínilplötur lifna við í höndunum á Ríkey.
Gamlar vínilplötur lifna við í höndunum á Ríkey. mbl.is/Árni Sæberg

Listaáhuginn sennilega ættgengur

Ríkey segist hafa verið að teikna og mála frá því að hún man eftir sér. Í grunnskóla var eftirlætisfag hennar myndmennt, síðan fór hún á myndlistarbraut og er núna í vöruhönnun í Listaháskólanum. „Það er mikið um list yfir höfuð í föðurættinni minni þannig að ætli þetta sé ekki eitthvað ættgengt,“ segir Ríkey. 

Hún hefur nú sitt annað ár í Listaháskólanum og hlakkar til að komast aftur í skólann. „Námið, nemendur og kennarar vinna vel saman og mikið samtal og samvinna sem er virkilega dýrmætt . Ég valdi þetta nám því ég hef alltaf verið frekar lausnamiðuð frá því að ég man eftir mér. Hvort sem það var eitthvað sem ég þurfti að sníða betur að mér eða finna upp á einhverju nýju til þess að það myndi henta mér betur. Þegar ég byrjaði svo í náminu gerði ég mér grein fyrir því að vöruhönnun er miklu víðara hugtak en ég var að búast við,“ segir Ríkey sem segir námið ekki bara spennandi og skemmtilegt heldur líka krefjandi. 

Skórnir hafa verið vinsælir.
Skórnir hafa verið vinsælir. mbl.is/Árni Sæberg

Hún segir námið mjög huglægt og að mikið púður fari í að framkvæma allar hugmyndir og miðla þeim til annarra. „Þannig mér finnst mjög gott að geta kúplað mig út með öðruvísi listsköpun með því að mála og gleyma mér í mínum eigin heimi,“ segir Ríkey. 

Listin og förðun samofin

Auk þess sem listaverkin fæðast á skóm, vínilplötum og striga hjá Ríkey farðar hún sig á mjög litríkan hátt. Hún segir áhugann á listsköpun og förðun fara vel saman og það sé í raun sami hluturinn fyrir henni. 

„Ég byrjaði alveg frekar ung að mála mig, móður minni til mikillar gleði (eða ekki), því að ég hef alltaf þurft að vera frekar extra í útliti og er enn þá þannig í dag þó að ég kunni aðeins betur á burstana. Ég vil líka meina að ég lærði að mála mig almennilega þegar ég lærði að mála á striga, blanda málningu, þekkja skugga og ljós,“ segir Ríkey. 

Ríkey skreytir plötur sem eru rispaðar og ekki er hægt …
Ríkey skreytir plötur sem eru rispaðar og ekki er hægt að spila lengur. mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar ég mála mig þá er það alltaf eins og ég sé að fara eitthvað fínt. Það er aldrei neinn millivegur hjá mér. Ég nota alltaf litaðan eyeliner, aldrei svartan nema ef annar litur sé með. Mér finnst ég ekki vera búin að mála mig nema ég sé með litaðan eyeliner. Mörgum finnst þetta vera kannski frekar skrýtið eða furðulegt að mæta einhverjum með bláan eyeliner út á kinnar en sem betur fer erum við ekki öll eins,“ segir Ríkey spurð hvernig hún máli sig dagsdaglega. 

Það þarf því varla að spyrja hana hvernig hún málar sig fyrir einhver fín tilefni, en það getur haft sína kosti að vera alltaf með förðunina upp á tíu. 

„Ég dálítið erfitt með þennan milliveg þannig að ég er alltaf máluð eins og ég sé að fara eitthvað fínt, sem er alveg frekar næs ef það kemur upp eitthvað skyndilega þá þarf ég kannski bara að skipta í fínni föt,“ segir Ríkey. 

Ríkey fer sjaldan út úr húsi án þess að setja …
Ríkey fer sjaldan út úr húsi án þess að setja á sig eyeliner. mbl.is/Árni Sæberg

Getur dundað sér í meira en klukkustund

Þar sem hún er yfirleitt með litríkan eyeliner er hún búin að ná nokkuð góðri færni í því og tekur það hana ekki langan tíma að gera sig til fyrir daginn. „Ef ég er að drífa mig tekur þetta sirka 15-20 mínútur en þar sem ég elska að mála mig og dunda mér við það þá gef ég mér alveg klukkutíma eða tvo ef ég á þá til, til þess að dunda mér rólega við skemmtilega tónlist eða hlaðvörp,“ segir Ríkey. 

Ríkey segist ekki vera nein fyrirmynd þegar kemur að því að hugsa vel um húðina en þegar hún er í rútínu sé umhirðan ákveðið ritúal. 

„Ég er að reyna að venja mig á það að þrífa hana vel og nota góð efni kvölds og morgna. Manni líður líka bara miklu betur andlega þegar maður hugsar vel um húðina, þetta verður svona ákveðið ritúal sem er svo róandi og nærandi,“ segir Ríkey. 

Hennar uppáhalds snyrtivara eru eylinerar. „Ég kaupi eyelinera frá síðu sem heitir Glisten cosmetics. Allir heimsins litir og og skemmtilegheit sem er hægt að gleyma sér að skoða,“ segir Ríkey.

mbl.is