Breyttur markhópur merkjavara býður upp á meira svindl

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, hefur víðtæka þekkingu á sviði hönnunar og þekkir því vel þau slæmu áhrif sem hönnunarstuldur hefur.

 „Þegar hugverki er stolið er fleiru stolið en hugmyndinni sjálfri, enda er hugmyndin aðeins fyrsti hluti af hönnunarferlinu. Það þarf mikla vinnu, þekkingu, menntun og fjármagn til að framkvæma hugmyndina, prófa hana og útfæra,“ segir Halla, sem hvetur fólk til þess að vanda sig þegar festa á kaup á hönnunarvörum.

Fólk yfirleitt grunlaust

Nýverið greindi Ýr Guðjohnsen, framkvæmdastjóri verslunarinnar Attikk, frá því að talsverður hluti af þeim merkjavörum sem koma til þeirra, eða um 20%, séu eftirlíkingar. Hún segir fólk yfirleitt vera grunlaust þegar það kemur með eftirlíkingar í verslunina, en miðað við þessa tölu sé talsvert hærra hlutfall í heildina af eftirlíkingum á íslenskum endursölumarkaði. 

Halla segir þessa tölu koma sér á óvart. 

„Við búum í hröðum heimi þar sem hugmyndir, form og hönnun flýgur út um heiminn á augnabliki. Það gefur fólki tækifæri til þess að stela hugverkum annarra, en á sama tíma er fólk líka fljótara að koma auga á stuld.“

Hugverk meira en bara hugmynd

„Það er mjög slæmt að fólk steli hugverkum annarra. Hönnuðir, eins og allir sem vinna við að skapa hugverk, starfa og lifa af þeim,“ segir Halla. 

„Það sem hönnuðir hafa fram að færa eru auðvitað hugmyndir, en það að fá hugmynd er ekki endilega það flóknasta í ferlinu. Það felst gríðarlega mikil vinna í því að framkvæma hugmyndina, prófa hana og útfæra, en þegar búið er að þróa hlut eða vöru þarf að markaðssetja hana og kynna hana, en það er ekki síður mikil vinna og þekking sem felst í því,“ bætir hún við.

„Þegar hugverki er stolið þá er búið að leggja gríðarlega mikið fjármagn og vinnu í verkið, og því er í raun verið að stela allri þessari vinnu og grafa undan þeim sem lifir á þessu,“ segir hún og bendir á að hönnunarstuldur geti í raun valdið því að hönnuður geti ekki haldið sinni vinnu áfram og þar af leiðandi sé verið að koma í veg fyrir frekari nýsköpun. 

Halla segir fólk vera í misgóðri stöðu til að takast á við hönnunarstuld. 

„Allir sem búa eitthvað til njóta í raun höfundarréttar,“ útskýrir hún og bætir við að stór fyrirtæki eigi mun auðveldara með að takast á við hönnunarstuld en minni fyrirtæki og einstaklingar. 

Ímyndin hefur breyst

Halla segir markhóp merkjavara hafa breyst mikið síðustu áratugi, en áður hafi afmarkaðri hópur haft efni á dýrum merkjavörum. 

„Það var algjörlega fjarstæðukennt fyrir 20 til 30 árum að venjuleg tvítug manneskja ætti Gucci-tösku. Hún hefði skoðað hana í blaði eða horft á hana í búðarglugga, en ekki dottið í hug að kaupa hana,“ segir Halla. 

Hún segir merkjavörur vera orðnar hluti af meginstraumstísku, meðal annars vegna tilkomu samfélagsmiðla.

„Þegar þetta breytist þannig að allir eiga að geta átt mjög dýrar merkjavörur og þetta verður almenn tíska þá býður það upp á mikið svindl,“ útskýrir hún og bætir við að í dag sé ekki óalgengt að fólk sem hafi engan veginn efni á merkjavörum leggi mikið á sig til að eignast þær, sem sé góður jarðvegur fyrir þá sem selja eftirlíkingar.

„Ef við hugsum aftur í tímann þá var varla hægt að kaupa merkjavörur á Íslandi. Þeir sem höfðu efni á því festu kaup á merkjavörum í sérverslunum stórborga þar sem hægt er að treysta á að ekki sé verið að selja eftirlíkingar. Margir fóru á ódýra markaði eða keyptu eftirlíkingar af götusölum. Einhverjir voru kannski auðtrúa og héldu að þeir væru raunverulega að gera góð kaup. Á þeim tíma þekktust ekki pop-up verslanir og verslanir á netinu. Í dag er orðið svo miklu auðveldara að nálgast merkjavöru en líka auðveldara að svindla á fólki.“

Hugarfar Íslendinga að breytast

Halla segir Íslendinga hafa orðið meðvitaðri um hugverk byggð á hönnun á þeim tíma sem hún hefur starfað í hönnunargeiranum. 

„Við erum farin að bera meiri virðingu fyrir því sem fólk skapar og erum stoltari af því sem búið er til á Íslandi en við vorum áður. Það er margt jákvætt sem hefur átt sér stað en ef við berum okkur til dæmis saman við Dani þá er þetta meira í DNA-inu þeirra,“ segir hún.

„Ég nota oft þá líkingu að við Íslendingar erum enn að búa til og byrja að kaupa hannaða hluti á meðan Danir erfa hönnunargripi frá öfum sínum og ömmum. Ef þú erfir dýran og flottan hönnunargrip frá afa og ömmu þá berðu virðingu fyrir honum. Þú veist að hann er verðmætur og hleypur ekki út og kaupir eftirlíkingu, það væri bara kjánalegt.“

Mittistaska frá Louis Vuitton.
Mittistaska frá Louis Vuitton.

Mikilvægt að vanda valið

Mikilvægt sé að fólk sé vel upplýst og vandi sig þegar kemur að kaupum á merkjavörum og hönnun. 

„Það er gott að vanda sig þegar merkjavörur og hannaðar vörur eru keyptar. Það er ekki í anda nútímans, því við verðum að huga að umhverfinu, að kaupa óvandaða hluti og mikið magn. Mikilvægt að vanda sig, velja gæði, vel hannaða vöru, einstaka og helst íslenska. Sérhannaðir einstakir hlutir eru alltaf dýrari en fjöldaframleiddir og kaupendur greiða fyrir það. Merkjavara er oftast fjöldaframleidd, og framleiðslukostnaður ekki hár. Kaupendur greiða mest fyrir merkið sjálft og ímyndina sem því fylgir.“

Hún mælir með því að fólk kaupi frekar það sem er einstakt, vel hannað og jafnvel búið til nálægt manni. Það sama gildi um kaup á erlendri merkjavöru, en þá sé mikilvægt að vanda sig og kaupa vöruna af traustu fyrirtæki.

„Vandaðu valið, borgaðu fyrir það og vertu stolt(ur) af því að eiga það lengi.“

mbl.is
Guðrún Arnalds - Darshan
Guðrún Arnalds - Darshan
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Valdimar Þór Svavarsson
Valdimar Þór Svavarsson

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda