Barnungar stúlkur hafa áhyggjur af svitaholum

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, og Katrín Mjöll Halldórsdóttir, barnasálfræðingur á Kvíðameðferðarstöðinni, ræða um aukinn húð- og snyrtivöruáhuga ungra stúlkna í Dagmálum í dag. Þær segja mikilvægt að foreldrar og forráðamenn taki ábyrgð og leiðbeini ungu kynslóðinni að umgangast vörurnar á heillbrigðan og skynsaman hátt áður en allt fer í óefni.

Þær segja aukna snyrti- og húðvörunotkun á meðal ungu kynslóðarinnar að mestu leyti sprottna upp frá samfélagsmiðlum. Það geti verið mikið áhyggjuefni því ungar stúlkur virðast í auknum mæli farnar að hafa áhyggjur af útliti sínu og upplifi sig ljótar í samanburði við filteraða og fótósjoppaða áhrifavalda sem þær líti gjarnan upp til. 

Sjá og upplifa útlitsgalla sem ekki eru til staðar

Áferð húðarinnar spilar stórt hlutverk og virðast ungar stúlkur á víðu aldursbili hafa auknar áhyggjur af öldrun, ójöfnum, örum, svitaholum og ýmsu öðru sem tengist áferð húðar.

„Svo er það þetta sem við köllum líkamsskynjunarröskun eða „body dysmorphic disorder“ og þá er það í rauninni þannig að þú fyllist bara viðbjóði tengt ákveðnum líkamsparti. Það getur verið í andliti eða í rauninni hvar sem er og þá er það oft tengt húðinni,“ segir Katrín Mjöll sem fær margþætt vandamál til meðhöndlunar inn á borð til sín sem barnasálfræðingur. Hún segir þráhyggju ungra stúlkna fyrir útliti hafa farið vaxandi undanfarið með tilheyrandi andlegri vanlíðan.

„Það er eiginlega ótrúlegt hvað börn eru farin að þekkja þessi orð. Þetta eru í rauninni orð sem þau eiga ekkert að þekkja; svitaholur, eða hrukkur eða einhverjar litabreytingar eða ójöfnur í húðinni. Maður er alltaf jafn hissa að heyra börn nefna svona hluti sem að kannski bara fullorðnir eru að tala um,“ segir Ragna Hlín og telur ábyrgðarleysi foreldra, áhrifavalda og markaðsumhverfis hluta af vandanum.  

Mikilvægt sé að finna til ábyrgðar og sýna gott fordæmi í þessum málum til að sporna hvort tveggja við skaða á húð og andlegri heilsu ungu kynslóðarinnar. 

Smelltu hér til að horfa á viðtalið í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál