Ein besta stund í lífi mínu

Simona Halep fagnar sigri sínum í dag.
Simona Halep fagnar sigri sínum í dag. AFP

Simona Halep varð í dag fyrsta rúmenska konan til að komast í úrslit á Wimbledon-mótinu í tennis.

Halep, sem er 27 ára gömul og vann opna franska meistaramótið í fyrra, hafði betur gegn Elinu Svitolinu frá Úkraínu í tveimur settum í undanúrslitunum í dag 6:1 og 6:3.

„Þetta er ótrúleg tilfinning en ég er líka spennt og kvíðin. Þetta er ein besta stund í lífi mínu,“ sagði Halep.

Halep mætir annað hvort sjöföldum meistara Serenu Williams frá Bandaríkjunum eða Barboru Stryvovu frá Tékklandi í úrslitaleiknum á laugardaginn.

mbl.is