Ármann: Alltaf klár á því að við færum upp

Ármann Smári Björnsson og félagar eru komnir aftur upp í …
Ármann Smári Björnsson og félagar eru komnir aftur upp í Pepsi-deildina. mbl.is/Eva Björk

„Þetta hefur verið svolítið upp og niður hjá okkur í sumar en svo kemur þetta í restina og við vinnum leikina sem skipta máli. Ég tel að við eigum alveg nógu gott lið til að spila í Pepsi-deildinni,“ sagði Ármann Smári Björnsson, miðvörður ÍA, í kvöld eftir að sæti í Pepsi-deildinni í knattspyrnu var í höfn.

Enn eru tvær umferðir eftir en Skagamenn eru öruggir um að ná að minnsta kosti 2. sæti deildarinnar.

„Ég var allan tímann klár á því að við færum upp og hafði aldrei neinar efasemdir um það. Við byrjuðum ekkert sérstaklega, töpuðum leikjum sem við eigum að vinna og svona, en ég missti aldrei trúna. Við vorum allan tímann á leiðinni upp,“ sagði Ármann. En telur hann að Skagamenn þurfi að bæta við sig mörgum leikmönnum fyrir keppni á meðal þeirra bestu?

Skoða núna hvað líkaminn segir

„Er það ekki alltaf þannig að það þurfa að koma inn ný andlit? Þjálfarinn ræður bara hvað hann gerir í þessu og svo sjáum við til. Ég býst allt eins við því að halda áfram. Ég ætla aðeins að skoða núna hvað líkaminn segir en á meðan ég er heill þá held ég áfram,“ sagði Ármann sem hefur séð um að leiðbeina yngri leikmönnum sem hafa blómstrað í sumar:

„Þetta er ungt lið, sumir með mikla reynslu og aðrir ekki. Við sem erum með meiri reynslu höfum reynt að byggja hina upp. Það er fullt af strákum sem hefur stigið upp í sumar og gert þetta að veruleika. Gulli hefur staðið sig mjög, er gamall leikmaður og veit nákvæmlega um hvað þetta snýst. Við höfum spilað fullt af leikjum sem hafa verið jafnir og þurft að sýna hvað við erum öflugir, og gert það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert