Ásgeir með KA í Pepsi-deildinni

Ásgeir Sigurgeirsson fagnar marki sínu í sigri á Grindavík þegar …
Ásgeir Sigurgeirsson fagnar marki sínu í sigri á Grindavík þegar KA tryggði sér deildarmeistaratitilinn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sóknarmaðurinn ungi Ásgeir Sigurgeirsson, sem lék nokkuð stórt hlutverk í sigri KA í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í sumar, hefur skrifað undir samning við félagið til tveggja ára.

Ásgeir kom að láni til KA frá Stabæk í Noregi og lék 17 af 22 deildarleikjum liðsins í sumar, og skoraði í þeim átta mörk. Þessi tvítugi leikmaður skoraði meðal annars eina markið í sigri á Selfossi í 19. umferð þegar KA tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni.

Ásgeir lék mest sem hægri kantmaður hjá KA en getur einnig leikið í öðrum stöðum fremst á vellinum. Hann er uppalinn hjá Völsungi á Húsavík en var keyptur þaðan til Stabæk. Hjá Stabæk meiddist Ásgeir og fékk hann að fara að láni til KA á meðan að hann komst af stað eftir meiðslin, en KA hefur nú keypt kappann frá Stabæk.

Ásgeir var valinn efnilegasti leikmaður KA nú í haust, og efnilegasti leikmaður Inkasso-deildarinnar á lokahófi Fótbolta.net.

mbl.is