Samkomulag Þórs og KA í höfn

Þór/KA mun spila í hlutlausum búningum, sem að öllum líkindum ...
Þór/KA mun spila í hlutlausum búningum, sem að öllum líkindum verða svartir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Samkomulag hefur náðst um áframhaldandi samstarf KA og Þórs um sameiginlegan meistaraflokk kvenna í knattspyrnu og verður skrifað undir samning þess efnis á morgun. Um grundvallarbreytingu verður að ræða og gildir samningurinn til loka tímabilsins 2019.

„Rauði þráðurinn er sá að það verður mun meira samstarf í gegnum allt starfið og bæði félög koma að þessu jafnt,“ sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Íþróttabandalags Akureyrar, í samtali við mbl.is í dag en hann fór fyrir vinnuhópi sem stofnaður var til þess að finna grundvöll fyrir frekari samstarfi.

Forsagan er sú að þann 17. janúar síðastliðin birti KA einhliða yfirlýsingu um að framlengja ekki samning um samstarfið hvað varðar rekstur sameiginlega meistaraflokka kvenna í knattspyrnu og handknattleik. Óhætt að segja að sú ákvörðun hafi valdið miklum titringi á Akureyri. Mbl.is fjallaði ítarlega um málið og nú er komin sú niðurstaða að Þór/KA mun halda áfram þátttöku á Íslandsmóti kvenna í knattspyrnu – í það minnsta til loka tímabilsins 2019.

Geir Kristinn segir að strax frá fyrsta fundi vinnuhópsins hafi verið mikill einhugur um að halda áframhaldandi samstarfi áfram. Breyting verður hins vegar á rekstrarumhverfinu í kringum liðið.

Þór/KA hefur verið í hópi bestu liða Íslandsmótsins síðustu ár.
Þór/KA hefur verið í hópi bestu liða Íslandsmótsins síðustu ár. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aukin samvinna og ný kennitala

„Helsta breytingin er sú að reksturinn verður skiptur til helminga; það koma báðir aðilar að starfinu og það verður mikið lagt upp úr samstarfi. Hvort félag skipar í kvennaráðið jafn marga fulltrúa sem verður á nýrri kennitölu. Þetta verður ekki rekið á kennitölu Þórs áfram,“ sagði Geir Kristinn við mbl.is í dag.

Samningurinn kveður einnig á um að félögin sameinist enn frekar um rekstur 2. flokks kvenna í knattspyrnu, auk varaliðs Þórs/KA sem verður betur rammað inn undir merkjum Hamranna. Ábyrgð á rekstrinum verður sameiginleg sem fyrr segir, þar sem keppnisumsókn fyrir meistaraflokk verður á kennitölu Þórs og keppnisumsókn fyrir 2. flokk á kennitölu KA.

„Það ríkir mikil ánægja hjá báðum félögum. Þessi vinna gekk mjög vel þó það hafi verið mikið af smáatriðum sem þurfti að útfæra,“ sagði Geir Kristinn. Þegar var búið að ákveða að leika í hlutlausum búningum, en Þór/KA hefur spilað í félagslitum Þórs síðustu ár.

Hvað varðar handboltann er sú vinna enn í gangi og sameiginlegu liði KA/Þórs verður teflt fram sem fyrr. Breytingin er sú að Þór kemur meira inn í reksturinn eins og KA í knattspyrnunni. Búist er við að samningur þess efnis verði kláraður á næstunni.

Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012.
Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Deilurnar um peningana

Eitt helsta þrætueplið í samstarfi félaganna var að forráðamenn Þórs voru ósáttir við forráðamenn KA um ráðstöfun á fjármagni frá KSÍ, sem er til komið vegna árangurs Íslands á EM í Frakklandi. Sam­kvæmt út­reikn­ingi ætti Þór/​​KA að fá 4 millj­ón­ir, eða tvær frá hvoru fé­lagi, en KA hef­ur gefið það út að fé­lagið ætli að nota fjár­magnið til upp­bygg­ing­ar á svæði sínu og að það sé í sam­ráði við KSÍ.

Geir Kristinn segir að samningurinn kveði skýrt á um hvernig fara á með fjármuni sem úthlutað verður til Þórs/KA. Þar sem Þór/KA er ekki sjálfstætt félag er það undir Þór og KA komið að úthluta fé til rekstursins.

„Upphæðin er misjöfn eftir því í hvaða deild Þór og KA eru í karlaboltanum og það verður föst upphæð sem fer inn í kvennaboltann, eftir því hvar karlaliðin standa,“ sagði Geir Kristinn. Eftir því sem hann kemst næst er sú klausa ekki afturvirk, og því mun ákvörðun KA um ráðstöfun fjármagnsins því að öllum líkindum standa.

Skrifað verður undir samninginn í hádeginu á morgun.

mbl.is