„Erum búnir að snúa þessu við“

Jóhann Laxdal lagði upp mark gegn KR.
Jóhann Laxdal lagði upp mark gegn KR. Ljósmynd/Dave Lee

Jóhann Laxdal, bakvörður Stjörnunnar, var með léttasta móti eftir 2:0 sigurinn á KR í Pepsí-deildinni í Garðabæ í kvöld þar sem hann lagði upp síðara mark Garðbæinga. 

Stjarnan hafði ekki unnið í deildinni síðan 28. maí en er engu að síður í 3. sæti og fór upp um tvö sæti með sigrinum. Stjarnan byrjaði afar vel í deildinni og vann fjóra leiki og gerði eitt jafntefli í fyrstu fimm leikjunum. Þá kom hins vegar kafli þar sem liðið tapaði þremur leikjum í röð en nú virðast Garðbæingar aftur vera að ná sér á strik. 

„Já ég vil helst ekki tala um hversu langt er síðan við unnum deildarleik. Júnímánuður var erfiður í deildinni. Góð lið koma til baka þótt illa gangi um hríð og við erum búnir að snúa þessu við. Áttum góðan leik í bikarnum og aftur núna í deildinni. Við lítum því bara fram á veginn. Deildin hlýtur að vera ein sú skrítnasta sem spiluð er. Menn þurfa að vera á tánum. Ekki þarf mikið til að fara neðar í töflunni. Okkur tókst að sækja þrjú stig í kvöld og horfðum á það að komast í 3. sætið með sigri sem er góður bónus. Nú er fyrri umferðinni lokið. Eins og deildin er að spilast þá getur allt gerst. Við höldum áfram að elta enda er gaman að elta. Svo er málið að skjótast fram úr á réttum tímapunkti,“ sagði Jóhann sposkur í samtali við mbl.is að leiknum loknum.

mbl.is