Stjarnan í 3. sæti eftir sigur á KR

Jóhann Laxdal og Guðmundur Andri Tryggvason í baráttunni á Samsung-vellinum ...
Jóhann Laxdal og Guðmundur Andri Tryggvason í baráttunni á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan hafði betur gegn KR 2:0 í 11. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. Stjarnan hafði yfir 1:0 að loknum fyrri hálfleik.

Stjarnan er með 18 stig í þriðja sæti deildarinnar og fór upp um tvö sæti. KR er með 11 stig í tíunda sætinu. Liðið er með jafn mörg stig og ÍBV sem er í ellefta sæti en KR á leik til góða.

Sigur Stjörnunnar sanngjarn en leikmenn liðsins voru ferskari en KR-ingar sem voru bitlitlir í sókninni. Ef til vill sat Evrópuleikur KR í Ísrael síðasta fimmtudag í KR-ingum en þeir voru í það minnsta kraftminni en Garðbæingar í kvöld. 

Leikurinn var þó ekkert sérstaklega opinn og bæði lið vörðust býsna vel. Hólmbert Friðjónsson braut ísinn með skallamarki frá markteigshorninu vinstra megin á 35. mínútu eftir fyrirgjöf frá Guðjóni Baldvinssyni. 

Síðara mark Stjörnunnar kom ekki fyrr en á 81. mínútu en það var einnig skallamark. Jóhann Laxdal sendi fyrir frá hægri og miðvörðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson skallaði í netið af markteig. 

Þótt Stjarnan sé í 3. sæti, sex stigum á eftir toppliði Vals, var engu að síður um fyrsta sigur liðsins í deildinni að ræða síðan 28. maí. 

Stjarnan 2:0 KR opna loka
90. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með 2:0 sigri Stjörnunnar sem er í 3. sæti deildarinnar.
mbl.is