Það má alveg byrja aftur

Helgi Valur Daníelsson.
Helgi Valur Daníelsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má alveg byrja aftur. Það eru engar reglur til í þessu,“ sagði Helgi Valur Daníelsson í samtali við mbl.is en hann hefur ákveðið taka fram skóna eftir næstum þriggja ára hlé og spila með uppeldisliði sínu, Fylki, í Pepsi-deildinni í sumar.

Helgi lék síðast með liði AGF í dönsku B-deildinni árið 2015 en hvað hefur drifið á daga hans síðan þá?

„Ég kláraði masters-nám í efnafræði og hef verið að starfa í Portúgal þar sem ég hef sinnt eftirliti með lyfjafíkn á vegum eftirlitsmiðstöðvar Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn. Ég hætti í þessu starfi í nóvember og hef verið að leita eftir annarri vinnu. Ég var mikið að velta því fyrir mér fyrir síðustu leiktíð að koma til Fylkis en þá var ég í góðri vinnu yfir sumarið svo það varð ekkert úr því. Nú kom þetta aftur upp að koma heim í Fylki og ég ákvað stökkva á það,“ sagði Helgi Valur, sem verður 37 ára gamall á þessu ári. Hann á að baki 33 A-landsleiki og lék síðast með því árið 2004.

Helgi Valur í baráttu við Bjarka Bergmann Gunnlaugsson í Evrópuleik …
Helgi Valur í baráttu við Bjarka Bergmann Gunnlaugsson í Evrópuleik FH og AIK fyrir nokkrum árum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hætti eftir tímabilið með AFG árið 2015. Mér fannst ég vera alveg búinn í hausnum. Við tryggðum okkur sæti í úrvalsdeildinni þetta tímabil og ég átti eitt ár eftir af samningi mínum en ég ákvað þá að segja þetta gott. Ég hellti mér út í starf tengt lyfjum og efnafræði og ætla mér að starfa áfram við það í framtíðinni. Ég hef haldið mér í ágætisformi frá því ég hætti og ég held að ég geti hjálpað liðinu eitthvað. Ég vona það að minnsta kosti.

Maður er auðvitað orðinn svolítið gamall en það að ég hafi hvílt mig frá fótboltanum í þrjú ár er kannski jákvætt upp á kroppinn að gera. Ég hef náð að hvíla hnén, ökklana og bakið og ég hef verið í einhverjum smá bolta. Ég veit ekki alveg hvernig þetta mun ganga en ég mun núna koma mér í gott form. Ég veit ekki hvort ég geti spilað alla leiki en þetta verður bara gaman og spennandi,“ sagði Helgi Valur.

Helgi Valur er búsettur í úthverfi Lissabon í Portúgal. Hann segist ætla að koma heim í febrúar og æfa með Fylkisliðinu í tíu daga. Hann mun síðan hitta liðsfélaga sína í æfingaferð í apríl og koma með þeim heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka