Gott „fjölskyldusamband“ við KSÍ

Fabrizio Taddei og Roberto Gandolfi voru fulltrúar Errea við kynningu …
Fabrizio Taddei og Roberto Gandolfi voru fulltrúar Errea við kynningu nýju landsliðstreyjunnar á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Eggert

„Það er mikill heiður og hefur mikla þýðingu fyrir okkur að vera framleiðandi íslenska landsliðsbúningsins,“ segir Fabrizio Taddei, sölustjóri ítalska íþróttavöruframleiðandans Errea, sem var viðstaddur kynningu á HM-landsliðstreyju Íslands á Laugardalsvelli í dag.

Taddei og Roberto Gandolfi, framkvæmdastjóri og einn eigenda Errea, lögðu ríka áherslu á það hve mikils þeir mætu samstarf sitt við KSÍ og bentu á að það næði lengra en svo að fyrirtækið framleiddi bara föt fyrir sambandið. Þannig hefur Errea til dæmis hjálpað íslenska karlalandsliðinu þegar það hefur dvalið við æfingar í Parma í undirbúningi fyrir leiki.

„Við höfum unnið saman með KSÍ frá árinu 2002 og við lítum á þetta sem eins konar fjölskyldusamband. Við vinnum náið saman og eigum í góðum samskiptum, og þetta snýst ekki bara um viðskipti heldur erum við eitt lið,“ segir Taddei.

Krossuðum fingur fyrir hvern leik

Fyrir EM 2016 seldist íslenska landsliðstreyjan eins og heitar lummur, og var raunar ófáanleg um tíma, slík var eftirspurnin. Kom þessi mikla eftirspurn Errea-mönnum á óvart?

„Þetta var dágóður fjöldi af treyjum en hvað okkur varðar þá skiptir ekki öllu máli hvað búningurinn selst í mörgum eintökum, heldur fyrst og fremst að gott samband sé okkar á milli. Auðvitað eru viðskiptin líka mikilvæg, en fyrir okkur er enn mikilvægara að halda þessu góða sambandi,“ segir Gandolfi.

„Við krossuðum fingur fyrir hvern leik á EM og vorum auðvitað afskaplega ánægðir með það hve vel gekk. Það seldust alla vega nokkuð mörg þúsund treyjur og við vonum að það gangi eins vel með þessa,“ segir Taddei glaðbeittur. „Fólk virðist taka nýju treyjunni vel og það er gott að vita,“ bætir Gandolfi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert