FH sannfærandi á móti KA

FH vann sanngjarnan 3:1-sigur á KA í 4. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld. FH var betri aðilinn í leiknum og fékk mun fleiri færi, en öll mörkin komu í síðari hálfleik. 

FH-ingar fengu bestu færin í nokkuð rólegum fyrri hálfleik. Þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður fékk FH nokkur góð færi á örfáum mínútum. Fyrst slapp Steven Lennon í gegn en Christian Martínez varði frá honum, Atli Guðnason náði frákastinu en þá bjargaði Guðmann Þórisson á línu.

Atli og Lennon fengu svo báðir eitt gott færi til viðbótar. Fyrst varði Martínez frá Atla af löngu færi og síðan skaut Lennon yfir úr stuttu færi eftir sendingu Atla. Færi KA-manna voru af skornum skammti og var staðan markalaus í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með látum því Guðmann Þórisson braut á Agli Darra Makan innan teigs á 48. mínútu. Steven Lennon fór á punktinn og skoraði af öryggi framhjá Martínez. FH-ingar sóttu meira næstu mínútur og skoruðu verðskuldað annað mark á 69. mínútu. Brandur Olsen stýrði þá boltanum í netið á fjærstönginni eftir fyrirgjöf Atla Guðnasonar.

KA-menn gáfust hins vegar ekki upp og minnkaði Elfar Árni Aðalsteinsson muninn tíu mínútum fyrir leikslok með glæsilegum skalla í fjærhornið. FH-ingar náðu hins vegar aftur tveggja marka forskoti nokkrum mínútum síðar er Steven Lennon slapp einn í gegn og setti boltann af öryggi í netið eftir að hann lék á Martínez.

Ekki voru fleiri mörk skoruð og er FH komið í níu stig. KA-menn eru hins vegar með fjögur stig. 

FH 3:1 KA opna loka
90. mín. Sæþór Olgeirsson (KA) á skalla sem er varinn Í góðu færi en nær ekki föstum skalla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert