Grindavík skellti Stjörnunni

Grindavíkurkonur fagna einu markanna í kvöld.
Grindavíkurkonur fagna einu markanna í kvöld. mbl.is/Eggert

Grindavík lagði Stjörnuna að velli í fjörugum leik, 3:2, á Samsung-vellinum í Garðabæ í 4. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn virtist ætla fara eftir bókinni í upphafi. Stjörnukonur voru mikið öflugri og uppskáru mark strax á 10. mínútu eftir að Katrín Ásbjörnsdóttir fór illa með Vivane Domingues í marki Grindavíkur er hún vann hana í loftinu til að skalla í autt markið.

Grindavík, sem var án stiga og ekki búið að skora mark í sumar, jafnaði þó metin tveimur mínútum síðar. Rio Hardy, enskur sóknarmaður í sínum fyrsta leik fyrir Grindavík, átti þá stangarskot áður en María Sól Jakobsdóttir skoraði úr frákastinu.

Á 33. mínútu var svo Hardy sjálf komin á blað eftir að Birna Kristjánsdóttir í marki Stjörnunnar gerði sig seka um skelfileg mistök. Birna missti boltann beint fyrir fætur Hardy sem skoraði af stuttu færi.

Heimakonur voru fljótar að ná áttum eftir hlé og jöfnuðu metin á 49. mínútu með góðu einstaklingsmarki Hörpu Þorsteinsdóttur sem fór illa með tvo varnarmenn áður en hún skoraði með hnitmiðuðu skoti frá vítateigsboganum.

Dramatíkin var þó svo sannarlega ekki búin og tók Grindavík forystuna á nýjan leik á 69. mínútu. Hardy skoraði þá sitt annað mark eftir mikinn darraðardans inni í vítateig Stjörnunnar.

Fleiri urðu mörkin ekki og tókst Grindavík að vinna sinn fyrsta leik í sumar og hefur liðið nú þrjú stig, áfram í neðsta sæti. Stjarnan er áfram í 5. sætinu með sex stig.

Stjarnan 2:3 Grindavík opna loka
90. mín. Leik lokið Grindavík tekur stigin þrjú!
mbl.is