Bjóst við þremur stigum

Gísli Eyjólfsson.
Gísli Eyjólfsson. mbl.is/Árni Sæberg

Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, sagði Blika hafa gefið eftir í síðari hálfleik gegn Val í Pepsí-deildinni í kvöld. Breiðablik hafði 1:0 yfir að loknum fyrri hálfleik en Valur hafði betur 2:1. 

„Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessum leik í allan dag. Ég bjóst við þremur punktum og það var það sem við vildum en gekk ekki upp í dag. Við áttum fyrri hálfleikinn en þeir tóku yfir í seinni og við áttum ekki svör við því. Við náðum okkur ekki alveg á strik í síðari hálfleik. Þar klikkaði eitthvað en þetta er bara einn leikur og nóg er eftir af leikjum,“ sagði Gísli þegar mbl.is spjallaði við hann á Hlíðarenda í kvöld. 

Toppbaráttan er galopin en Breiðablik er með 11 stig eins og Grindavík. FH með 10 og á leik til góða. Þá koma KR, Fjölnir og Valur með 9 stig. „Já það er gaman að þetta skuli vera svona opið. Við misstum örugglega efsta sætið eftir þessi úrslit en það verður ekki langt þangað til við förum þangað aftur.“

mbl.is