Blikasigur gegn slöku Stjörnuliði

Frá Kópavogsvelli í kvöld.
Frá Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór

Breiðablik tók á móti Stjörnunni í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld en leiknum lauk með 1:0-sigri heimakvenna.

Stjörnukonur byrjuðu af miklum krafti og voru sterkari fyrstu fimmtán mínútur leiksins en Blikastúlkur unnu sig vel inn í leikinn og tóku öll völd á vellinum, hægt og rólega. Selma Sól Magnúsdóttir kom heimakonum yfir á 28. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu við vítateigslínuna en Birna Kristjánsdóttir átti að gera miklu betur í markinu. Stjörnukonur náðu ekki að ógna marki heimakvenna eftir markið og voru Blikakonur líklegri til þess að bæta við en tókst ekki að skora og staðan því 1:0 í hálfleik.

Heimakonur fengu besta færi síðari hálfleiks þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir slapp ein í gegn strax á 46. mínútu en Birna varði meistaralega frá henni. Stjörnukonur ógnuðu nánast ekkert þangað til Harpa Þorsteinsdóttir kom inn á sem varamaður á 70. mínútu. Hún reyndi hvað hún gat að reyna að finna liðsfélaga sína en allt kom fyrir ekki og lokatölur því 1:0 fyrir Blika.

Breiðablik er komið á toppinn í Pepsi-deildinni á nýjan leik með 27 stig en Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig, 11 stigum á eftir toppliði Blika.

Breiðablik 1:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 1:0 sigri Breiðabliks. Sanngjarnt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert