„Það er erfitt að koma upp orði“

Fanndís Friðriksdóttir fer framhjá Tékkum í leiknum í dag.
Fanndís Friðriksdóttir fer framhjá Tékkum í leiknum í dag. mbl.is/Eggert

„Við verðum svekktar yfir þessu í einhvern tíma en svo heldur lífið áfram. Við tekur bara næsta verkefni,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir við mbl.is eftir að Ísland gerði 1:1-jafntefli við Tékkland á Laugardalsvelli og mistókst þar með að tryggja sér sæti í umspili um sæti á HM í knattspyrnu næsta sumar.

„Vá, það er eiginlega bara erfitt að koma upp orði. Þetta er bara ömurlegt,“ sagði Fanndís og var ekki nægilega ánægð með frammistöðu liðsins. Ísland fékk fullt af færum, sérstaklega í fyrri hálfleik, en lenti snemma undir. Ísland jafnaði svo þegar skammt var eftir en svo fór vítaspyrna forgörðum í uppbótartíma.

„Mér fannst við ekki ná almennilegum takti í okkar leik, hvorki í vörn né sókn. Mér fannst við svolítið slitnar og úti um allt, ekki sem ein heild. Ég veit ekki af hverju, það var ekki stress eða neitt svoleiðis. Við vissum hvað við vorum að fara út í og að við þyrftum að vinna þennan leik. Svo ég hreinlega veit ekki hvað gerðist,“ sagði Fanndís.

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi á laugardag fyrir framan uppseldan Laugardalsvöll þar sem sigur hefði tryggt sæti á HM. Mikil einbeiting var á þeim leik, en var eitthvert spennufall fyrir þennan leik í dag?

„Nei, í rauninni ekki. Við vissum að Þýskalandsleikurinn væri númer eitt en vissum alltaf af þessum leik líka. Við vissum alveg dagskrána og allt slíkt. Við undirbjuggum okkur eins og fyrir alla aðra leiki. Við fórum vel yfir þær á vídeófundi, tókum góða æfingu í gær og það var ekkert nýtt í því,“ sagði Fanndís.

Hún viðurkenndi að tékknesku leikmennirnir hefðu verið farnir að pirra liðið mikið.

„Já, þær gerðu það. Þær kunna öll brögðin í bókinni, en við vissum hvað við vorum að fara út í. Þetta kom ekki á óvart þótt við höfum verið orðnar pirraðar. Við vissum hvað var mikið undir í leiknum og vildum að sjálfsögðu vinna,“ sagði Fanndís.

Hún sagði að þrátt fyrir að dómarinn hefði ekki átt sérstaklega góðan leik kenndu íslensku stelpurnar því ekki um. „Það er engu um að kenna nema okkur sjálfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert