Besta lið sem Sverrir hefur mætt

Belgar fagna marki Eden Hazard í kvöld. Sverir Ingi til ...
Belgar fagna marki Eden Hazard í kvöld. Sverir Ingi til hægri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„3:0 er heldur stórt. Sérstaklega miðað við hvernig seinni hálfleikurinn spilaðist. Þetta hefði orðið öðruvísi leikur hefðum við náð að setja þetta þriðja mark svokallaða. En þeir drápu leikinn með þessu þriðja marki,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, miðvörður íslenska karlandsliðsins í knattspyrnu, eftir 3:0 tap gegn Belgíu í Þjóðadeildinni. 

„En við gerðum betur í dag en á laugardaginn og vorum staðráðnir í því að gera það fyrir sjálfa okkur og framhaldið að sýna betri frammistöðu,“ sagði Sverrir við mbl.is.

Sverrir segir að það hafi verið mikilvægt að koma til baka eftir 6:0-skellinn á móti Sviss í fyrsta leik keppninnar á laugardag.

„Já, klárlega. Það var ekki ásættanlegt. Við vissum það allir. Svona slys geta orðið. En þau eiga ekki að verða. En við getum allavega horft hver á annan í dag, að við höfum gefið allt í þetta,“ sagði Sverrir sem var í baráttu við einn besta framherja í heimi í dag, Romelu Lukaku, leikmann Manchester United. 

„Það er leikmaður í heimsklassa og er frábær leikmaður og hefur sýnt það í langan tíma. Þeir eru með heimsklassaleikmenn í öllum stöðum og eru ásamt Frökkum með besta landslið í heimi. Við getum allavega sagt að við héldum í við þá. Síðan eigum við eftir að fá mikið inn af sterkum leikmönnum sem hafa verið lykilleikmenn í mörg ár. Við getum vonandi byggt á þessu,“ sagði Sverrir.

Spurður um hvort þetta hafi verið besta lið sem hann hafi mætt svaraði Sverrir játandi.

„Já, ég hugsa það nú. Þetta er frábært fótboltalið. Með marga leikmenn í heimsklassa,“ sagði Sverrir Ingi.

Spurður um framhaldið segir Sverrir.

„Við erum í Þjóðadeildinni og þar erum við að spila við bestu lið í heimi. Vissulega er það mikið test fyrir okkur. Vonandi getum við lært af því og nýtt okkur reynsluna í kjölfarið og getum komið sem best undirbúnir í þjóðadeildina í mars,“ sagði Sverrir.

Sverrir Ingi Ingason.
Sverrir Ingi Ingason. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is