„Gríðarleg pressa á Stjörnunni“

Baldur Sigurðsson og Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliðar Stjörnunnar og Breiðabliks. Báðir …
Baldur Sigurðsson og Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliðar Stjörnunnar og Breiðabliks. Báðir þekkja það að vinna bikarúrslitaleik og fagna bikarmeistaratitlinum. mbl.is/Hari

Gunnleifur Gunnleifsson hefur marga fjöruna sopið á löngum ferli sem knattspyrnumaður og í kvöld leiðir markvörðurinn lið Breiðabliks inn á Laugardalsvöll í úrslitaleik Mjólkurbikarsins gegn Stjörnunni.

„Ég held að þetta sé bara 50:50. Stjarnan hefur unnið okkur tvisvar í sumar en vonandi náum við að koma þeim aðeins á óvart núna. Það hefur ekki skilið mikið á milli í þessum leikjum þó að þeir hafi unnið verðskuldað. Þetta stefnir í jafnan leik,“ sagði Gunnleifur á fréttamannafundi fyrir leikinn.

„Spennustigið er bara fínt. Það eru margir ungir strákar í þessu liði sem eru bara í ótrúlega góðu jafnvægi. Við höfum fengið nógan tíma frá síðasta deildarleik, getað farið yfir nokkur vídeó og æft okkar áherslur, og það er mjög fínt að hafa svona góðan tíma til að undirbúa stærsta leik ársins,“ sagði Gunnleifur.

Leiktíminn, laugardagskvöld, er nokkuð óvenjulegur í íslenskum fótbolta en Gunnleifur segir tímann eða mikilvægi leiksins engu breyta í undirbúningnum:

„Undirbúningurinn er bara hefðbundinn hjá okkur. Við gerum bara það sem við erum vanir að gera, hver fyrir sig, og mætum svo á fund niður í Smára áður en við komum í grænu JAKO-göllunum okkar á Laugardalsvöll og ætlum að taka bikarinn síðan heim.“

Stjarnan hefur unnið báða leiki sína í Pepsi-deildinni gegn Breiðabliki, tvö síðustu ár, og Gunnleifur segir pressuna vera á Stjörnumönnum frekar en Blikum að vinna í dag:

„Það er gríðarleg pressa á Stjörnunni að vinna þennan bikar. Þeir hafa aldrei unnið hann. Þeir hljóta að koma rosalega grimmir strax í byrjun og ætla að setja á okkur mark, og ég er undirbúinn fyrir það. Þeir eru erfiðir við að eiga í háum og löngum sendingum, með sterka og stóra stráka, og eiga örugglega eftir að keyra á okkur. Við þurfum að vera í stakk búnir til að eiga við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert