„Langar hrikalega mikið í þennan bikar“

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Dave Lee

„Okkur langar hrikalega mikið í þennan bikar. Við töluðum um það fyrir mót að við ætluðum að leggja þvílíkt hart að okkur til að komast í úrslitaleikinn, og þangað erum við komnir,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson sem í dag freistar þess að stýra Stjörnunni til bikarmeistaratitils í fyrsta sinn.

Stjarnan og Breiðablik mætast í úrslitaleik Mjólkurbikars karla á Laugardalsvelli og hefst leikurinn kl. 19.15. Stjörnumenn hafa áður leikið til úrslita en ekki lyft bikarnum enn sem komið er.

„Ég er alltaf bjartsýnn maður og hlakka bara mikið til að spila þennan leik. Við erum búnir að leggja hart að okkur til að komast í þennan úrslitaleik og menn eiga bara að koma hérna og njóta þess að spila. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessum leik. Við erum gott lið, við vitum það, en þurfum að eiga okkar besta leik til að landa þessum titli. Blikarnir eru hörkulið og leikir liðanna í sumar hafa verið hrikalega öflugir hjá báðum liðum. En þetta er allt öðruvísi keppni, og öðruvísi stund. Þetta snýst bara um þennan eina leik og við þurfum að vera upp á okkar besta,“ segir Rúnar Páll. Telur hann það kost eða galla fyrir Stjörnuna í leiknum í dag að hafa aldrei orðið bikarmeistari?

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna; Rúnar Páll Sigmundsson, Baldur Sigurðsson, Gunnleifur …
Þjálfarar og fyrirliðar liðanna; Rúnar Páll Sigmundsson, Baldur Sigurðsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Ágúst Gylfason á kynningarfundi fyrir bikarúrslitaleikinn. mbl.is/Hari

Það verða margir hressir Garðbæingar hérna

„Liðið er reynt og nokkrir hafa spilað nokkra bikarúrslitaleiki, og unnið. Einhverjir hafa aldrei spilað til úrslita og það er alltaf stórt. En menn eru orðnir sjóaðir í stórleikjum, þannig séð, eftir fullt af góðum Evrópuleikjum og fleiri leikjum síðustu ár. Við vitum alveg okkar styrkleika, varnarlega og sóknarlega. Þetta snýst um að menn mæti með rétt stillt spennustig í leikinn og við sem stöndum í kring þurfum að hjálpa til við það,“ segir Rúnar Páll, sem býst við góðum stuðningi í Laugardalnum í kvöld. Garðbæingar ætla að hittast á heimavelli sínum, Samsung-velli, kl. 16 og þaðan ferja rútur mannskapinn niður á Ölver í Glæsibæ. Stuðningsmannasveitin Silfurskeiðin ætlar að hita vel upp á Ölveri og saman munu Stjörnumenn svo ganga þaðan á völlinn:

„Ég reikna með mörgu fólki hérna og það verða alla vega margir hressir Garðbæingar hérna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fá stuðning frá okkar fólki í Garðabænum og Silfurskeiðinni. Laugardagskvöld, fljóðljós og frábært veður. Þetta getur ekki verið betra,“ segir Rúnar Páll en mbl.is ræddi við hann á kynningarfundi á Laugardalsvelli.

mbl.is