Skemmtilegir og harðir leikir

Baldur Sigurðsson og Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliðar Stjörnunnar og Breiðablks, halda …
Baldur Sigurðsson og Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliðar Stjörnunnar og Breiðablks, halda í verðlaunagripinn sem aðeins annar þeirra fær að fagna á laugardaginn. mbl.is/Hari

„Leikirnir á milli þessara liða eru yfirleitt skemmtilegir. Þetta er ákveðinn grannaslagur, segir Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, sem ætlar að leiða liðið til fyrsta bikarmeistaratitilsins í sögu þess.

Stjarnan mætir Breiðabliki í úrslitaleik Mjólkurbikarsins annað kvöld á Laugardalsvelli kl. 19.15. Baldur hefur unnið bikarinn fjórum sinnum á sínum ferli, þrisvar með KR og einu sinni með Keflavík. Hann hefur því unnið titilinn oftar en félög á borð við Breiðablik, FH og fleiri.

Þetta er flottur leiktími, svona strax eftir landsleikjahlé, því þetta gefur liðunum tækifæri á að undirbúa sig gríðarlega vel fyrir þennan stóra leik, segir Baldur.

Mér finnst stemningin í hópnum mjög góð. Ég hef ekki samanburðinn af fyrri úrslitaleikjum Stjörnunnar en miðað við það sem ég hef upplifað sjálfur fyrir þessa leiki þá finnst mér hún góð. Strákarnir eru rólegir. Við erum með reynt lið og ég held að andlega verðum við mjög klárir í leikinn. Það er vissulega búinn að vera langur tími til að hugsa um leikinn, sem er kannski óvenjulegt fyrir bikarúrslitaleik, en þetta gefur tækifæri til að fara yfir mikið af taktík, og ná sér heilum af smámeiðslum ef menn glíma við slík, segir Baldur. Hann vill ekki gera of mikið úr einhvers konar ríg á milli liðanna.

Blikarnir eru með gríðarlega öflugt lið og vilja eflaust hefna fyrir leikina sem við spiluðum við þá í sumar. Ég býst við Blikunum býsna grimmum og brjáluðum út í leikinn. Við berum mikla virðingu fyrir Breiðabliki sem fótboltaliði, þarna er fullt af frábærum leikmönnum og góðir þjálfarar. Ég ætla ekki að fara að kynda upp í einhverjum derby-slag, en vissulega eru þessir leikir liðanna skemmtilegir og þeir eru harðir. Það er mikil barátta og þannig á fótbolti að vera,“ segir Baldur.

mbl.is