Gísli bestur og sýndi mestan stöðugleika

Gísli Eyjólfsson úr Breiðabliki með verðlaunagrip sinn sem besti leikmaður …
Gísli Eyjólfsson úr Breiðabliki með verðlaunagrip sinn sem besti leikmaður Íslandsmótsins í fótbolta að mati Morgunblaðsins. mbl.is/Árni Sæberg

Gísli Eyjólfsson, 24 ára gamall miðjumaður úr Breiðabliki, vann nokkuð sannfærandi sigur í einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni, í Pepsi-deild karla árið 2018.

Gísli spilaði alla 22 leiki Breiðabliks í deildinni og fyrir sextán þeirra fékk hann eitt eða tvö M, nánar tiltekið þrettán sinnum eitt og þrisvar sinnum tvö. Það sýnir vel stöðugleika hans því til að fá eitt M þarf viðkomandi að sýna góðan leik.

Gísli fékk samtals 19 M, þremur meira en næstu menn, og hann fékk þau jafnt og þétt allt tímabilið. Tvívegis í fimm leikjum í röð, og á seinni kaflanum, frá þrettándu til sautjándu umferð, fékk hann þrisvar tvö M (sem þýðir að hann hafi átt mjög góðan leik), þannig að segja má að þar hafi hann lagt grunninn að þeirri endanlegu niðurstöðu sem lá fyrir að lokinni síðustu umferð deildarinnar á laugardaginn.

Guðjón varð annar

Guðjón Baldvinsson, sóknarmaður Stjörnunnar, hafnar í öðru sæti M-gjafarinnar 2018 en hann fékk 16 M í 21 leik Garðabæjarliðsins. Guðjón fékk þrettán sinnum eitt M og þrisvar tvö M en hann fékk ellefu af þessum sextán M-um í fyrri umferð deildarinnar. Guðjón átti afar gott tímabil og lagði upp á annan tug marka fyrir Stjörnuna auk þess að skora fimm sjálfur. Meiðsli sem hann varð fyrir snemma leiks í næstsíðustu umferðinni settu strik í reikninginn.

Ítarlegt uppgjör um M-gjöfina í Pepsi-deild karla í fótbolta 2018 má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Þar eru birtir fimm bestu leikmenn í hverju liði, birt ellefu manna úrvalslið ársins með tíu varamönnum, ásamt úrvalsliðum erlendra leikmanna, yngri leikmanna og eldri leikmanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert