Þórður æfir með Víkingum

Þórður Ingason æfir með Víkingi Reykjavík þessa dagana.
Þórður Ingason æfir með Víkingi Reykjavík þessa dagana. mbl.is/Ómar Óskarsson

Knattspyrnumaðurinn Þórður Ingason æfir þessa dagana með Víkingi Reykjavík en það er fótbolti.net sem greinir frá þessu. Þórður er uppalinn í Grafarvogi og hefur verið fyrirliði Fjölnis undanfarin ár, en Fjölnismenn féllu úr efstu deild síðasta haust og munu því leika í 1. deildinni í sumar.

Samningur Þórðar við Fjölni rann út í október og íhugaði markmaðurinn að leggja hanskana á hilluna en hann hefur nú æft með Víkingum að undanförnu. „Það er óvíst með markmannamál. Þórður Inga hefur verið að æfa með okkur síðustu 2-3 æfingar,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í samtali við Fótbolta.net. 

Þórður á að baki 244 leiki á ferlinum, þar af 134 í efstu deild. Hann hefur spilað með Fjölni, KR og BÍ/Bolungarvík á ferlinum og þá fór hann ungur að árum til reynslu hjá Everton. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert