Landsliðsmaður til liðs við Hauka

Kristján Ómar Björnsson þjálfari, Frans Sigurðsson, Sean de Silva og ...
Kristján Ómar Björnsson þjálfari, Frans Sigurðsson, Sean de Silva og Eiður Arnar Pálmason formaður knattspyrnudeildar Hauka við undirskriftina í dag. Ljósmynd/Hulda Margrét

Sean de Silva, knattspyrnumaður frá  Trínidad og Tóbagó og landsliðsmaður þjóðar sinnar, gekk í dag til liðs við 1. deildarlið Hauka og samdi við félagið um að spila með því á komandi keppnistímabili.

De Silva er 29 ára gamall miðjumaður sem á átta landsleiki að baki ásamt því að spila með yngri landsliðum Trínidad og Tóbagó. Fyrsta A-landsleikinn lék hann 19 ára gamall gegn Panama árið 2009 en spilaði síðast vináttulandsleik gegn Ekvador árið 2017. Hann kemur frá Queen's Park í næstefstu deild í heimalandi sínu og hefur leikið til skiptis á heimaslóðum eða í Bandaríkjunum á ferli sínum. 

Þá hafa Haukar samið við ÍBV um að vera áfram með Frans Sigurðsson á láni en hann spilaði tíu leiki með Hafnarfjarðarliðinu á síðasta tímabili og skoraði eitt mark.

mbl.is