Landsliðsmaður til liðs við Hauka

Kristján Ómar Björnsson þjálfari, Frans Sigurðsson, Sean de Silva og …
Kristján Ómar Björnsson þjálfari, Frans Sigurðsson, Sean de Silva og Eiður Arnar Pálmason formaður knattspyrnudeildar Hauka við undirskriftina í dag. Ljósmynd/Hulda Margrét

Sean de Silva, knattspyrnumaður frá  Trínidad og Tóbagó og landsliðsmaður þjóðar sinnar, gekk í dag til liðs við 1. deildarlið Hauka og samdi við félagið um að spila með því á komandi keppnistímabili.

De Silva er 29 ára gamall miðjumaður sem á átta landsleiki að baki ásamt því að spila með yngri landsliðum Trínidad og Tóbagó. Fyrsta A-landsleikinn lék hann 19 ára gamall gegn Panama árið 2009 en spilaði síðast vináttulandsleik gegn Ekvador árið 2017. Hann kemur frá Queen's Park í næstefstu deild í heimalandi sínu og hefur leikið til skiptis á heimaslóðum eða í Bandaríkjunum á ferli sínum. 

Þá hafa Haukar samið við ÍBV um að vera áfram með Frans Sigurðsson á láni en hann spilaði tíu leiki með Hafnarfjarðarliðinu á síðasta tímabili og skoraði eitt mark.

mbl.is