Gylfi stendur vel undir ábyrgðinni

Hugo Lloris stillti sér upp með 100 ára afmælistreyjuna sem ...
Hugo Lloris stillti sér upp með 100 ára afmælistreyjuna sem franska liðið mun leika í á morgun. Franska knattspyrnusambandið á 100 ára afmæli í ár. AFP

Hugo Lloris talaði fallega um sinn gamla liðsfélaga úr Tottenham, Gylfa Þór Sigurðsson, á blaðamannafundi í París í dag en þeir mætast annað kvöld þegar Frakkland og Ísland leika í undankeppni EM í knattspyrnu.

„Gylfi er vel þekktur um allan heim og sérstaklega í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur gert svo góða hluti með Tottenham, Swansea og nú Everton. Hann er lykilmaður þar og í landsliðinu. Hann stendur vel undir ábyrgðinni, er frábær maður og frábær leikmaður. Við þurfum að hafa góðar gætur á honum. Hann er mjög góður í aukaspyrnum og gefur eitraðar sendingar sem við þurfum að verjast vel,“ sagði Lloris.

Þessi 32 ára gamli markvörður og fyrirliði Frakka hefur mætt Íslandi tvisvar áður og fengið á sig 2 mörk í hvort skipti, í 5:2-sigrinum í 8-liða úrslitum EM 2016 og í 2:2-jafntefli þjóðanna í vináttulandsleik í október. Lloris segir franska liðið vita vel að erfitt verkefni sé fyrir höndum:

„Þetta eru mjög kappsfullir leikmenn eins og þeir hafa sýnt. Það er mikil áskorun fyrir þá að koma hingað. Þeir eru mjög sterkir í föstum leikatriðum, bæði aukaspyrnum og innköstum. Við megum ekki leyfa þeim að fá sjálfstraust hérna og verðum að sjá til þess að þeir geti ekki látið ljós sitt skína,“ sagði Lloris.

mbl.is