Stoltir af okkar fótbolta

Ildefons Lima sat fyrir svörum á blaðamannafundi Andorra í Laugardalnum …
Ildefons Lima sat fyrir svörum á blaðamannafundi Andorra í Laugardalnum í dag. AFP

„Við erum stoltir af okkar fótbolta,“ sagði Ildefons Lima, fyrirliði knattspyrnuliðs Andorra, á blaðamannafundi liðsins á Laugardalsvelli í kvöld. Ísland tekur á móti Andorra í undankeppni EM á morgun klukkan 18:45. Ísland er í þriðja sæti H-riðils með 12 stig en Andorra er fimmta sætinu með 3 stig.

„Íslenska liðið spilar sinn fótbolta og við spilum okkar. Við erum smáþjóð og við erum stoltir af því hvernig við spilum. Við mætum með sjálfstraust inn í leikinn eftir góðan sigur gegn Moldóvu en við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara mæta mjög öflugu liði sem tapaði naumlega fyrir Frakkalndi.“ 

Fyrirliðinn á von á því að íslenska liðið verði meira með boltann á morgun og að leikmenn Andorra þurfi að verjast mikið í leiknum.

„Við vitum hvað við getum og við munum leggja áherslu á varnarleikinn. Þeir verða meira með boltann, það er viðbúið, og við þurfum að nýta þau tækifæri sem við fáum,“ sagði Lima á blaðamannfundi Andorra í Laugardalnum í dag en hann hefur leikið 125 landsleiki á 22 árum, spilaði fyrst með landsliðinu árið 1997 og lék m.a. tvívegis gegn Íslandi árið 1999. Hann er leikjahæsti landsliðsmaður í sögu Andorra og jafnframt sá markahæsti með 11 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert