KA fyrst til að vinna Stjörnuna

Almarr Omarsson í baráttunni við Guðmund Stein Hafsteinsson í Garðabænum …
Almarr Omarsson í baráttunni við Guðmund Stein Hafsteinsson í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

KA kom sér upp í 5. sæti þegar liðið vann 2:0-sigur á Stjörnunni í Garðabæ í dag í 5. umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta. Mörkin skoruðu gestirnir með fimm mínútna millibili snemma í seinni hálfleik. Stjörnumenn áttu þrjár marktilraunir sem fóru í súlurnar á marki KA.

KA fór með sigrinum upp um fimm sæti og er nú í 5. sæti deildarinnar með 6 stig. Þetta var fyrsta tap Stjörnunnar í deildinni í sumar en liðið er með 8 stig í 3. sæti.

Stjörnumenn voru mun öflugri aðilinn í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var þó markalaus. Guðmundur Steinn Hafsteinsson kom boltanum í markið strax á 7. mínútu en markið fékk ekki að standa þar sem að Þorsteinn Már Ragnarsson mun hafa misst boltann aftur fyrir endamörk áður en fyrirgjöfin á Guðmund kom. Stjarnan sótti áfram og Hilmar Árni Halldórsson var sérstaklega aðgangsharður. Rétt fyrir leikhlé átti hann sína bestu tilraun þegar skot hans vinstra megin úr teignum fór í stöng og út.

KA varð fyrir áfalli rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Daníel Hafsteinsson meiddist. Ólafur Aron Pétursson kom inn á í hans stað. Í upphitun fyrir leik hafði Callum Williams einnig meiðst og Haukur Heiðar Hauksson því komið inn í byrjunarliðið á síðustu stundu í hans stað.

KA gerði sína aðra skiptingu strax í upphafi seinni hálfleiks þegar Alexander Groven kom inn á og hann bjó til dauðafæri skömmu síðar fyrir Hrannar Björn Steingrímsson, sem skaut boltanum yfir. KA náði hins vegar forystunni þegar Ólafur Aron skoraði á 50. mínútu, eftir fyrirgjöf Hallgríms Mars Steingrímssonar og misheppnað úthlaup Haraldar Björnssonar.

Gestirnir létu kné fylgja kviði og komust í 2:0 þegar Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði aðeins fimm mínútum síðar, úr dauðafæri í teignum eftir frábært þríhyrningsspil við Ými Má Geirsson. Guðmundur Steinn fékk dauðafæri fyrir Stjörnuna skömmu síðar en skaut í þverslána og yfir.

Stjörnumenn gerðu svo þrefalda skiptingu til að freista þess að snúa stöðunni sér í hag og einn varamannanna, Baldur Sigurðsson, átti fljótlega skalla í þverslá og yfir. Nær komst Stjarnan því ekki að skora og KA hélt heim með þrjú góð stig en tvo meidda leikmenn.

Stjarnan 0:2 KA opna loka
90. mín. Sæþór Olgeirsson (KA) fær gult spjald Fyrir brot.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert