ÍA lagði kjarklausa Blika

Arnar Már Guðjónsson og Guðjón Pétur Lýðsson í baráttu um …
Arnar Már Guðjónsson og Guðjón Pétur Lýðsson í baráttu um boltann á Kópavogsvellinum í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýliðar ÍA sitja einir á toppnum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, eftir 1:0-sigur gegn Breiðabliki í toppslag 5.umferð deildarinnar á Kópavogsvelli í gær en fyrir leikinn í gærkvöldi voru liðin jöfn að stigum í efstu sætum deildarinnar með 10 stig hvort.

Akurnesingar fengu þrjú mjög góð færi í leiknum en það var ekki fyrr en komið var fram í uppbótartíma sem Skagamönnum tókst að brjóta ísinn þegar varnarmaðurinn Einar Logi Einarsson stýrði skoti Stefáns Teits Þórðarsonar í markið eftir hornspyrnu Tryggva Hrafns og Skagamenn fögnuðu sigri.

Skagamenn voru sterkari aðilinn í leiknum, þeir fengu betri færi, og var sigurinn því sanngjarn þegar upp var staðið. Þeir gerðu mjög vel í að ýta Blikunum út úr eigin þægindaramma og Blikar áttu í raun engin svör við afar skipulögðum varnarleik Skagamanna. Þrátt fyrir skipulagðan varnarleik ógnuðu Skagamenn sífellt með skyndisóknum sínum og föstum leikatriðum. Hápressa Skagamanna var til fyrirmyndar og trekk í trekk unnu þeir boltann á vallarhelmingi Blika í fyrri hálfleik, þótt þeim hafi ekki tekist að nýta það sem skyldi.

Blikar voru meira með boltann í gær en það er eini tölfræðiþátturinn sem þeir geta tekið með sér út úr leiknum. Þeir voru einfaldlega undir á öllum sviðum leiksins og sóknarleikur liðsins var lítill sem enginn. Liðið skapaði sér ekki opið marktækifæri allan leikinn og það vantaði einfaldlega kjark og þor í þjálfarateymi liðsins til að taka áhættu og sækja til sigurs á eigin heimavelli í gær. Það var eins og Blikar væru sáttir með stigið eftir 80. mínútna leik og þeir fengu það heldur betur í andlitið.

Sjá allt um leikina í Pepsi Max-deildinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert