Viljum svör sem við bara fáum ekki

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, á hliðarlínunni gegn Víkingi í …
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, á hliðarlínunni gegn Víkingi í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við vorum ekki alveg í taktinum fannst mér svona til að byrja með en svo fljótlega náðum við ágætis tökum á leiknum þegar við vorum með boltann. Það sem ég er ósáttur með er að við vorum allt of berskjaldaðir varnarlega,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA-manna eftir 4:3 tap fyrir Víkingum í 10. umferð Pepsi Max deildar karla í kvöld.

„Fyrsta markið er ólíkt okkur. Þar sem leikmaður þeirra fær hann inn í teig og nær að snúa varnarmann af sér og skora. Það komu upp tvær svoleiðis stöður sem er mjög ólíkt okkur. Ég er svona ósáttastur við það, að það sem einkennir okkur hafi brugðist í dag.

Ef þú færð á þig þrjú eða fjögur mörk þá er mjög erfitt að fá eitthvað út úr leiknum og það verðum við fyrst og síðast að horfa í sjálfir,“ sagði Óli Stefán, en KA er í fimmta sæti deildarinnar með 12 stig.

„Við verðum að halda áfram. Sóknarleikurinn var fínn hjá okkur á köflum. Bara á stórum stundum í þessum leik. Því að fyrir utan það að skora þrjú mörk fáum við frábærar stöður og færi og gerum tilkall í tvö víti sem er svo sem önnur saga.“

Aðspurður um frammistöðu dómarans í kvöld sagði Óli:

„Það komu upp tvær stöður þar sem að hann sleppir því að dæma og svo dæmir hann mjög svo vafasamt víti á okkur. Auðvitað eru menn svekktir og vilja svör sem við bara fáum ekki. Við verðum samt aðallega að horfa á okkur sjálfa og skoða það sem fór úrskeiðis í okkar leik því við breytum ekki þessum dómum núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert