Haukar sendu Njarðvík í fallsæti

Alexander Freyr Sindrason (t.h.) skoraði eitt marka Hauka í kvöld.
Alexander Freyr Sindrason (t.h.) skoraði eitt marka Hauka í kvöld. mbl.is/Arnþór

Haukar komu sér úr fallsæti í 1. deild karla í fótbolta, Inkasso-deildinni, með 5:1-sigri á Njarðvík í Reykjanesbæ í kvöld í fyrsta leik 9. umferðar.

Þetta var fimmta tap Njarðvíkinga í röð og þeir eru nú komnir niður fyrir Hauka í 11. sæti með 7 stig, tveimur stigum á eftir Haukum. Magni er neðstur með 5 stig en á leik til góða við Víking Ó. á laugardag.

Haukar komust í 3:0 á fyrstu 34 mínútum leiksins í kvöld með mörkum frá Aroni Frey Róbertssyni, Fareed Sadat og Alexander Frey Sindrasyni. Ísak Jónsson bætti við fjórða markinu fyrir hálfleik. Ari Már Andrésson minnkaði muninn fyrir Njarðvík snemma í seinni hálfleik en í uppbótartíma skoraði Daði Snær Ingason fimmta mark Hauka.

Umferðin heldur áfram á miðvikudag þegar Fram tekur á móti Þrótti R. Á fimmtudag mætast Keflavík og Leiknir R., og Afturelding og Grótta, og á laugardaginn mætast svo Fjölnir og Þór annars vegar og Magni og Víkingur Ó. hins vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert