„Hef séð hundrað þúsund fótboltaleiki“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var að vonum sáttur með sína …
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var að vonum sáttur með sína menn eftir sigur dagsins. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég er hrikalega ánægður með liðið mitt,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir 3:2 sigur á ÍBV í Mjólkurbikarnum í knattspyrnu í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn var ekkert slæmur við vorum með control á leiknum en fengum á okkur tvö slæm mörk. En með hverjum leiknum finnst mér liðið vera að þroskast og taka stór stökk fram á við. Ég var mjög rólegur í hálfleik í staðinn fyrir að vera eitthvað að æsa mig. Gömul klisja, þriðja markið í leiknum, þá breytist svolítið. Þeim er búið að ganga illa í sumar og við herjuðum og herjuðum á þá, þetta var bara karaktersigur og vel spilað við erfiðar aðstæður.“

Eyjamenn voru 2:0 yfir í hálfleik en Víkingar sneru taflinu við.

„Ég breytti ekki neinu í hálfleik, ég sagði bara að ég er búinn að sjá hundrað þúsund fótboltaleiki. Við erum með betra fótboltalið en ÍBV og miðað við hvernig við erum búnir að spila í sumar þá er ástæða fyrir því þegar við erum að tapa fótboltaleik það er bara fókus leikmanna. Við erum með nægilega góða leikmenn en það er bara fókusinn og sumir leikmenn þurftu að fínstilla sig og leið og það kom og við fengum fyrsta markið frá Captain Marvel, þá var þetta bara aldrei spurning í mínum augum.“

Nikolaj Hansen kom inn á seint í síðari hálfleik og breytti gangi leiksins.

„Já hann breytti leiknum, Örvar spilaði líka mjög vel þetta var fyrsti leikurinn hans í langan tíma. Nikolaj var stífur eftir KA leikinn og var ekki 90 mínútna maður en ég sagði við hann í gær að ég þyrfti bara á honum að halda í 60 mínútur og að hann myndi skora úr víti. Átti reyndar von á því að það væri í vítaspyrnukeppni en þetta var bara gríðarlega flott.“

Sigur Víkinga var þriðji sigurleikur liðsins í röð.

„Já þetta er mikilvægt fyrir okkur og mikilvægt að Kári sé ekki að koma inn til að bjarga eitthverju heldur er hann að koma og styrkja gott lið og gera okkur betri sem að hann mun gera.“

mbl.is