KR-ingar að fá Kristján Flóka

Kristján Flóki Finnbogason,
Kristján Flóki Finnbogason, Ljósmynd/Start

Flest bendir til þess að framherjinn Kristján Flóki Finnbogason sé á leið til KR frá norska B-deildarliðinu Start samkvæmt heimildum mbl.is.

FH og KR hafa verið á höttunum eftir Kristjáni Flóka og það lítur allt út fyrir það að KR-ingar muni hafa betur í þeirri baráttu. Líklega ganga KR-ingar frá kaupunum á leikmanninum í vikunni en KR-ingar eru nú með hugann við leikinn á móti norska liðinu Molde en fyrri leikur liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar fer fram í Noregi í dag.

Kristján, sem er 24 ára gamall, er uppalinn í FH og hefur skorað 16 mörk í 55 leikjum með liðinu í efstu deild. Hann skoraði átta mörk í 14 leikjum með FH í Pepsi-deildinni árið 2017 en í ágúst það ár var hann seldur til Start.

Kristján Flóki hefur komið við sögu í tíu leikjum Start í norsku B-deildinni í ár en aðeins tvisvar sinnum hefur hann verið í byrjunarliðinu. Í fyrra var hann í láni hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Brommapojkarna.

mbl.is