Bandarískur sóknarmaður til Stjörnunnar

Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvennalið Stjörnunnar í knattspyrnu hefur samið við bandaríska sóknarmanninn Camille Elizabeth Bassett um að leika með liðinu í Pepsi Max-deildinni.

Bassett er 22 ára gömul og hefur leikið með liði So Cal Union í bandarísku B-deildinni, WPSL, og með Central Arkansas-háskólaliðinu.

Hún er annar erlendi leikmaðurinn sem Stjarnan fær til liðs við sig í vikunni en enski framherjinn Shameeka Fis­hley er komin til Garðabæjarliðsins.

Þeim Fishley og Bassett er ætlað að hressa upp á sóknarleik Stjörnunnar en liðinu hefur ekki tekist að skora í síðustu fimm leikjum sínum í deildinni. Stjarnan hefur aðeins náð að skora fimm mörk í níu leikjum sínum í Pepsi Max-deildinni og er í 5. sæti deildarinnar með 10 stig.

mbl.is