Lífið úti hentaði mér ekki

Selma Sól Magnúsdóttir klárar tímabilið með Breiðabliki.
Selma Sól Magnúsdóttir klárar tímabilið með Breiðabliki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var vel spilaður leikur af okkar hálfu og við gerðum vel í að spila okkur í gegnum þær trekk í trekk á miðjunni,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 9:2-sigur liðsins gegn ÍBV í tíundu umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Það var mikið pláss fyrir framan vörnina hjá þeim allan leikinn og við nýttum okkur það mjög vel. Við skoruðum níu mörk sem er mikil bæting frá fyrri leikjum í sumar en að sama skapi vorum við klaufar að fá á okkur tvö mörk og kannski það eina sem var neikvætt við þennan leik í kvöld en heilt yfir þá er ég mjög sátt.“

Eftir leik kvöldsins munar einungis tveimur mörkum á Breiðabliki og Val í efstu sætum deildarinnar en Selma segir að liðið hafi ákveðið að halda sig við upprunalega leikplanið í hálfleik.

„Loksins fór þetta að smella og við erum búnar að vera í smá veseni með að skora í sumar. Þetta datt aðeins fyrir okkur í síðasta leik og svo aftur í kvöld þannig að vonandi erum við komnar á beinu brautina núna og við ætlum okkur að halda áfram. Við erum bara að hugsa um okkur sjálfar og við ákváðum að halda okkur við sama leikplan og í byrjun. Staðan í hálfleik var 5:0 og okkur fannst við eiga meira inni og það sýndi sig heldur betur.

Selma Sól lék með háskólaliði South Carolina síðasta vetur en hún hefur ákveðið að snúa aftur heim til Íslands og mun því klára tímabilið með Breiðabliki.

„Lífið úti hentaði mér ekki alveg þannig að ég ákvað að taka þá ákvörðun að koma heim og ég er ánægð með þá ákvörðun,“ sagði Selma Sól í samtali við mbl.is.

mbl.is